Á laugardaginn bauð Skrímslasetrið gestum og gangandi upp á vöfflur og kaffi í tilefni af því að sumarvertíðinni var að ljúka. Veitingasalurinn var þéttsetinn af ungum sem öldnum sem þáðu ókeypis veitingarnar og gerðu sér dagamun. Um kvöldið að svo pubkviss og félagarnir Viðar og Gísli héldu uppi stemmningunni.
Valdimar Ottósson og Elfar Steinn Karlsson eru eigendur að Skrímslasetrinu og létu vel af rekstrinum í sumar. Um 4.000 gestir komu til að skoða skrímslasafnið og góð aðsókn að veitingasölunni.
Nú þegar skólastarfið er hafið færist hluti af starfi Grunnskóla Bíldudals inn í húsakynnin og verður því Skrímslasetrið lokað. Mygla kom upp í Grunnskólanum og var skólastarfið fært í nærliggjandi hús, gamla grunnskólann og Skrímslasetrið. Ákveðið hefur verið að byggja nýja skóla og er unnið að samningum við verktaka.
Skrímslasetrið á Bíldudal.