Vikuviðtalið: Lilja Rafney Magnúsdóttir

Þjóðarsál okkar Íslendinga rímar oft við ljóð Hannesar Hafsteins fyrrum sýslumanns á Ísafirði.

Lífið er dýrt,dauðinn þess borgun. Drekkum í kveld og iðrumst á morgun.

Þessi vísa hefur lifað með þjóðinni um ár og öld og á rætur sínar að rekja til þess að langa langaafi minn hann Friðbert Guðmundsson frá Vatnadal í Súgandafirði var í verslunarferð á Flateyrar sem var mikill verslunarstaður á þeim árum. Friðbert var glaður á góðri stund og hafði fengið sér vel í tána og Torfi kaupmaður sagði „Friðbert minn er þetta ekki komið gott hjá þér vinur“. Þá á Friðbert að hafa sagt „drekkum í kveld og iðrumst á morgun„ og Hannes sýslumaður frétti af þessum orðum og úr því varð til þessi vísa sem lifir enn í dag með landanum.

Sumarið og samveran.

Ég er þeirrar náttúru gerð að ég er fljót að gleyma leiðinlegu veðri og á auðveldara með að muna góðu dagana og í æsku var alltaf gott veður í minningunni. Sumarið í ár hefur verið að stríða okkur svoldið og bleytt vel í móður jörð en mörg okkar höfum getað skroppið suður um höf og sótt okkur sól og yl. Við Hilmar vorum svo gæfusöm að ná allri stórfjölskyldunni með okkur á sólarströnd, börnum og barnabörnum og góðum fylgifiskum. Þetta eru dýrmætar stundir og skapa minningar sem ylja því þegar upp er staðið þá eru það stundir með manns nánustu sem skipta öllu máli hvort svo sem það er um  vetur ,sumar,vor eða haust.

Pólitíkin er vanabindandi áhugamál.

Ég hef vasast í verkalýðsmálum,félagsmálum og pólitík í gegnum tíðina og haft gaman að þó stundum geti það verið súrt en það gleymist fljótt eins og vont veður. Nú stend ég á hliðarlínunni sem varaþingmaður sem reynt hefur að hafa áhrif en ekki haft alltaf erindi sem erfiði svo ég steig til hliðar eftir 25 ára starf í VG og þar af 12 ár á Alþingi þar sem dýrmæt reynsla og þekking skapaðist með góðu fólki innan sem utan þings. Það er nefnilega þannig að á Alþingi eins og á öðrum vinnustöðum skapast góð vinátta þvert á flokka. Ég tel mjög mikilvægt að á þeim vettvangi séu kjörnir fulltrúar með fjölbreyttann bakgrunn og þekkingu á lifinu í landinu sem nýtist til þess að skapa laga umgjörð um gott samfélag um allt land með innviðum sem þjóna öllum landsmönum.

Heimur versnandi fer.

Það sker í hjartað að horfa uppá fréttir hvern einasta dag um þjóðarmorð og styrjaldir víðsvegar í heiminum þó hörmungarnar á Gaza og í Úkraínu séu þar efstar á blaði þá er víða ömurlegt ástand sem fer hljóðar í hinum vestræna heimi eins og hörmungarnar í Súdan. Maður spyr sig er það virkilega svo að mannskepnan sé í raun grimmasta skepna jarðar og hversvegna geta vitibornir menn ekki stöðvað þessa vitfirringu sem blasir við dagsdaglega í fréttum. Eru það peningar,valdasýki, og kapítalísk hagkerfi heimsins sem stuðla að því að kynnt sé undir styrjaldir með vopnaframleiðslu og ásókn og græðgi í auðlindir fátækari ríkja. Eru Vesturlöndin svo saklaus í þessu hernaðarbrölti sem skilur eftir sig sviðna jörð því ef vopnaframleiðsla þeirra leggðist af þá hefði það mikil áhrif á efnahag ríkjanna. Nú þurfa friðflytjendur um heim allann að leggjast á eitt með friðarboðskap og tala fyrir samningaviðræðum því við leysum aldrei deilur með drápum,gjöreyðingu og styrjöldum það eru heimskra manna ráð.

Margt er í mörgu.

Lífið er ólíkindatól og margt breyttist vegna veikinda í fjölskyldunni minni en samt er alltaf hægt að þakka fyrir að ekki fór verr og maður aðlagar sig breyttum aðstæðum. Ég hef sinnt ýmsum verkefnum síðustu misseri en ekki verið í fastri vinnu og var m.a. í starfshóp á vegum Umhverfisráðherra ásamt öðru góðu fólki sem skilaði metnaðarfullri skýrslu í vor um „Orkunýttni og ný tækifæri til orkuöflunar „ Vestfirðir eiga mikið inni svo bæta megi raforkuöryggið og flutningskerfið og vil ég að skoðaðar verði allar skynsamlegar leiðir til orkuöflunar og betri orkunýtingar þó ég sé mjög gagnrýnin á vindmyllugarða sem nú er mikil ásókn í og þar þarf að setja öfluga lagaumgjörð um hvar og hvort yfir höfuð megi setja vindmyllur niður. Einnig þurfa kjörnir fulltrúar okkar að vera miklu kröfuharðari svo hraða megi samgöngubótum og að fá fleiri jarðgöng og  breikkun á hættulegum einbreiðum Vestfjarðargöngum framar í samgönguáætlun. Mér finnst stundum eins og að menn séu of lítillátir og hógværir í kröfum sínum því þó það þokist eitthvað áfram sem er mjög gott þá hafa Vestfirðir allir setið á hakanum alltof lengi og þar þarf að jafna leikinn á landsvísu og ríkið á í mikilli innviðaskuld við þennan landshluta að öðrum ólöstuðum.

Lífið og tilveran.

Langa langaafi minn hann Friðbert í Vatnadal sagði „drekkum í kveld og iðrumst á morgun „ Hann var þó ekki neinn drykkjumaður en stundum þurfum við að gleðjast yfir því góða sem við höfum og stíga uppúr dægurþrasinu þó margt megi betur fara í okkar þó tiltölulega friðsama og góða samfélagi. Hörmulegir atburðir undanfarið og hnífaburðir ungs fólks vekja okkur til vitundar um að við þurfum að standa saman sem samfélag og hlú að unga fólkinu okkar og öllum þeim sem eiga við geðræn vandamál að stríða og þurfa gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Það sem einkennir gott samfélag er samhjálp,vinátta og samtakamáttur og að standa með þeim sem minnst mega sín. Þannig samfélagi hef ég alist upp í hér á Suðureyri og þekki það vel á Vestfjörðum og það er sem betur fer þannig víða um land allt. Nú um stundir er ég í stjórn TR en er tilbúin til að taka að mér þau verkefni sem lífið færir mér. Þú færð ekki allt sem þú vilt og vilt ekki allt sem þú færð er stundum sagt,en það er mikilvægt að gera það besta úr hlutunum hverju sinni það er mitt mottó !

Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Landsbyggðarkona og varaþingmaður.

DEILA