Byggðabragur: Félagssálfræðileg rannsókn og verkfærakista ætluð sveitarfélögum

Byggðabragur sveitarfélaga er viðfangsefni rannsóknarskýrslu sem nýverið var gefin út af Rannsóknasetri byggða og sveitarstjórnarmála við Háskólann á Bifröst. Skýrslan ber heitið Byggðabragur: Félagssálfræðileg rannsókn á þremur íslenskum sveitarfélögum. Rannsóknin var styrkt af Byggðarannsóknasjóði vorið 2023. Samhliða skýrslunni var gefin út handbók, Byggðabragur: Verkfærakista ætluð sveitarfélögum. Höfundar beggja rita eru dr. Bjarki Þór Grönfeldt og dr. Vífill Karlsson.

Sveitarfélögin Dalabyggð, Húnaþing vestra og Húnabyggð tóku þátt og var byggðabragur þeirra viðfangsefni rannsóknarinnar.

Rannsakendur leituðu meðal annars eftir breytum eða mögulegum ástæðum sem gætu skýrt þann mun milli sveitarfélaganna sem áður hafði sést í íbúakönnunum í þáttum sem efla jákvæðan byggðabrag. Byggðabragur er skilgreindur í skýrslunni þannig að átt er við hver ánægja íbúa er með sveitarfélagið og þjónustuna þar sem þeir búa, hversu bjartsýnir þeir eru á framtíðina og hvort þeir vilji halda áfram búsetu á svæðinu.

Samhliða skýrslunni kom út handbókin „Byggðabragur: Verkfærakista ætluð sveitarfélögum“. Handbókinni er ætlað að vera leiðarvísir fyrir sveitarfelög sem vilja byggja upp jákvæðan byggðabrag og auka lífsgæði íbúanna. Bent er á mikilvægi virkrar hlustunar stjórnenda og jafnframt að skýr stefna og tilgangur séu grundvallaratriði. Hlustun á íbúa og menning sem stuðlar að virkni þeirra og þátttöku í samfélagi þar sem allir tilheyra sé dýrmæt. Mikil verðmæti fyrir sveitarfélög sé fólgin í því að efla stolt íbúa.

DEILA