Nýtt stöðugildi Bláma á Patreksfirði

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Fjölmenni var á opnum fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðsráðherra í Edinborgarhúsinu á Ísafirði í gærkvöldi. Ráðherrann fór yfir þær 15 tillögur sem  eru í skýrslu starfshóps ráðuneytisins um eflingu samfélagsins á Vestfjörðum frá júní 2023. Rakti hann stöðu þeirra og gerði grein fyrir því sem hefði verið gert.

Fram kom að enn er til skoðunar erindi Orkubús Vestfjarða um heimild til þess að láta vinna umhverfismat fyrir Vatnsdalsvirkjun, en svæðið er væntanlegt virkjunarsvæði er innan friðlands. Þar er beðið eftir áliti Háskólans á Akureyri á almannahagsmunum þess að verða við erindinum  og sagði ráðherrann að von væri á því í haust og í framhaldinu yrði erindi Orkubúsins tekið til afgreiðslu. Starfshópurinn telur mikilvægt að skoða þennan virkjunarkost nánar og elggur áherslu á að stjórnvöld svari erindi OV sem fyrst. Í starfshópnum áttu sæti Einar K. Guðfinnsson, formaður og Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ og Jón Árnason, þáverandi forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar.

Varðandi Hvalárvirkjun þá er beðið niðurstöðu Óbyggðanefndar til landakröfu ríkisins sem krefst þess að stórt landssvæði sunnan og austan Drangajökuls verði lýst þjóðlenda og sagði ráðherrann að stöðufundur yrði í mánuðinum.

Unnið er að ákvörðun um tengipunkt í Ísafjarðardjúpi og sagði ráðherra að niðurstöðu Landsnets væri að vænta innan skamms. Er miðað við að hann verði efst í Lágadal og þaðan liggi línan frá Hvalárvirkjun yfir í Kollafjörð austan Klettháls.

Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar og varamaður í stjórn Landsnets upplýsti að ákveðið hefði verið að tengja Hvalárvirkjun við landskerfið á þennan hátt og ekki með tengingu frá tengipunktinum um Ísafjarðardjúp til Ísafjarðar.

Urðu miklar umræður á fundinum um virkjanir og tengingar þeirra.

Blámi fær aukin verkefni

Samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og Vestfjarðastofu sem nefnist Blámi verður endurnýjað til þriggja ára og hefur verið ákveðið að ráða í nýtt stöðugildi á Patreksfirði. Bláma hefur m.a. verið falið að ræða við landeigendur til þess að flýta fyrir byggingu smávirkjana á Vestfjörðum.

Fundasókn var góð og greinilega mikill áhugi á orkumálum fjórðungsins.

Vel var mætt frá bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

DEILA