Moðhausasprettur í stað Sæunnarsunds

Það viðraði ekki nógu vel á Sæunnarsundkappana þetta árið, gul viðvörun og talsverð bára. En, það gengur ekki að stefna fjölda manns vestur á firði og bjóða þeim bara upp á heimsókn í pottinn á Flateyri, með fullri virðingu fyrir þeim afbragðspotti.

Þess vegna var tekin ákvörðun um að í stað þverunar á firðinum líkt og Sæunn gerði forðum, var farið í klaufann bróður hennar, hinum óheppna og ofstopafulla Moðhausi. En hann synti sér ekki til lífs þegar hann slapp frá slátraranum á Flateyri, hann synti beint upp í fjöru neðan við Kaldá, rauk þar í fjós og braut allt og bramlaði. Til hans spurðist ekki eftir það. Nú var sem sagt ákveðið að synda í klauffar hans og lagt var upp neðan við strompinn og synt inn í höfnina á Flateyri, altsvo öfuga þá leið sem Moðhaus fór á sínum tíma.

Það voru 23 ofurhugar sem lögðu af stað þetta árið, sinadráttur lagði einn kappann að velli og þáði hann aðstoð björgunarsveitar en hinir náðu takmarki sínu og var vel fagnað þegar komið var að rampinum inn í Flateyrarhöfn.

Þetta átti að vera sjötta Sæunnarsundið en endaði sem fyrsti Moðhausaspretturinn.

Alls hafa nú verið teknar 127 sundferðir í Önundarfirði á vegum Sæunnarsunds og það eru 90 einstaklingar sem hafa tekið þessi sund, margir koma ár eftir ár. Til dæmis hefur Erna Héðinsdóttir mætt fimm sinnum.

„Þessi skemmtilegi viðburður á Flateyri nýtur víðtæks stuðnings og í ár eru það Vestfirskir Verktakar, Hampiðjan, Dokkan, Arctic Fish og Orkubú Vestfjarða sem leggja okkur til aura, Snerpa vistar heimasíðuna og Arna, MS og Dokkan leggja til góðgæti í keppnistöskurnar. Þessi stuðningur gerir stjórninni kleift að greiða okkar frábæru björgunarsveitum örlítinn þakklætisvott því svo sannarlega er ekki synt án þeirra og bjóða syndurum upp á öryggisbúnað sem þarf.“ segir Bryndís Sigurðardóttir einn af forsprökkum sundsins.

Komið í land að loknu sundi.

Myndir: Bryndís Sigurðardóttir.

DEILA