Ekki áhersla á breikkun Súgandafjarðarganga

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ segir aðspurð að Ísafjarðarbær hafi lagt mikla áherslu á breikkun Breiðadalsleggjar Vestfjarðaganga vegna öryggissjónarmiða og vaxandi umferðar. „Við höfum bent á þá slysahættu sem einbreið göng með lélegri lýsingu hefur í för með sér og þakka má fyrir að ekki hafi orðið alvarleg slys á fólki. Göngin bera ekki þá miklu umferð sem er í gegnum þau, og þá sérstaklega yfir sumartímann þegar rútur flykkjast í gegnum göngin frá Ísafjarðarhöfn á leið sinni á Dynjanda.  Við höfum líka bent á þá staðreynd að göngin uppfylla ekki allar kröfur í reglugerð um öryggi, t.a.m. hvað varðar kantljós og atvikamyndavélar, og við höfum farið fram á að settur verði upp búnaður til umferðastýringar þar til gögnin verða breikkuð.“

Varðandi göngin til Súgandafjarðar segir Arna Lára að „ekki hefur verið lögð mikil áhersla á breikkun Súgandafjarðarleggjar Vestfjarðaganga, þar sem umferðarþungi þar er minni. Betri lýsing og umferðastýring mun hafa þar mikið að segja til að greiða fyrir umferð.“

Í samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar sem lögð var fram á Alþingi síðasta haust er að finna tillögu um 10 jarðgangakosti sem lagt er til að ráðist verði í á næstu 30 árum. Þar er lagt til að Múlagöng, einbreið jarðgöng milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur, verði leyst af hólmi með tvíbreiðum gögnum og að Breiðadalsleggur Vestfjarðaganga verði breikkaður og gerður tvíbreiður.

Áfram er því gert ráð fyrir að verði einbreið göng til Súgandafjarðar, sem er 3 km kafli Vestfjarðaganga. Suðureyri verður því eina byggðarlagið á landinu þar sem samgöngur til og frá því eru um einbreið jarðgöng ef tillagan nær fram að ganga óbreytt.

Strákagöng við Siglufjörð verða leyst af hólmi með nýjum tvíbreiðum göngum í Fljótin, Siglufjarðarskarðsgöngum.

DEILA