Jarðgangaáætlun: Vestfirðir verði settir á oddinn

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ segir í svari við fyrirspurn Bæjarins besta um afstöðu sveitarfélagsins til röðunar á gerð jarðganga, sem fram kemur í framlagðri samgönguáætlun fyrir 2024 – 2038, að Ísafjarðarbær hafi sett fram þá meginkröfu að jafnræðis verði gætt milli landshluta hvað varðar forgangsröðun.

„Ísafjarðarbær hefur gert athugasemdir að verkefni á Vestfjörðum skuli ekki raðast ofar í framlagri samgönguáætlun Innviðaráðherra sem ekki fékkst samþykkt á vorþingi. Við höfum beint því til Innviðaráðuneytisins að breyta forgangsröðun jarðganga með því að setja Vestfirði á oddinn enda býr enginn annar landshluti við þær aðstæður sem Vestfirðir þurfa að búa við í dag. Horfa verður til þess gríðarlegs ávinnings sem jarðgöng á Vestfjörðum hafa í för með sér, hvað varðar öryggissjónarmið, sameining búsetu- og atvinnusvæða og ekki síst þeirra gríðarlega miklu þjóðhagslegu verðmæta sem verða til á Vestfjörðum. Að þessu sögðu verður að árétta mikilvægi þess að tryggja öruggar samgöngur milli Ísafjarðar og Súðavíkur með göngum til að losna við snjóflóðahættu og grjóthrun. Álftafjarðargöng munu hafa afar jákvæð áhrif á tengsl milli byggðakjarna á Vestfjörðum. Norðanverðir Vestfirðir eru eitt atvinnu- og búsetusvæði. Fjölmargir íbúar sækja atvinnu daglega byggðakjarnanna.  Íbúar Súðavíkur sækja flesta sína grunnþjónustu, til að mynda heilbrigðis- og velferðarþjónustu, til Ísafjarðar.“

Í tillögu ríkisstjórnarinnar er lagt til að hafist verði handa við Fjarðarheiðargöng og sett fé til undirbúnings og rannsókna þriggja jarðganga, Siglufjarðarskarðsganga, Hvalfjarðarganga 2 og nýrra ganga milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur.

Sex jarðgangakostir verði til viðbótar á 10 ganga lista en ekkert fé verði sett til þeirra. Þar á meðal eru fjórir jarðgangakostir á Vestfjörðum.

Forsætisráðherra Bjarni Benediktsson lýsti því yfir í vikunni að sterk rök væru fyrir því að flýta rannsóknarvinnu fyrir Siglufjarðarskarðsgöngum en framkvæmdir við göngin eiga að hefjast 2028 skv. tillögunni.

Kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar frá mars 2023. Hækkun verðlags síðan þá er 5,4%.

DEILA