Það verður nóg um að vera um verslunarmannahelgina í Árneshreppi, fámennasta sveitarfélagi landsins. Á föstudagskvöld ætlar Linda Guðmundsdóttir frá Finnbogastöðum að leika á harmonikku fyrir gesti á Kaffi Norðurfirði. Ungmennafélagið Leifur heppni stendur fyrir mýrarboltamóti á Melum á laugardaginn og hefst það kl. 13 og tilvalið fyrir ungna sem aldna að skella sér í forina og etja kappi. Á laugardagskvöldið er árlegur dansleikur í félagsheimilinu í Trékyllisvík sem Leifur heppni og björgunarsveitin Strandasól halda. Líkt og fyrri ár leika Blek og byttur fyrir dansi, en árvissir dansleikir sveitarinnar í Trékyllisvík eru rómaðir af fagurkerum í dansleikjafræðum.