Reykhólahreppur: vill frekari upplýsingar um áhrif af vindorkugarði

Sveitarstjórn Reykhólahrepps segir í umsögn sinni til Skipulagsstofnunar um vindorkugarð í Garpsdal að ágætlega sé gerð fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum og helstu umhverfisáhrifum þeirra í umhverfismatsskýrslu. Jafnframt telur sveitarfélagið að framkvæmdin komi almennt til með að hafa jákvæð áhrif á samfélagið vegna atvinnu og atvinnutækifæra. Þó sé ljóst að jafnumfangsmiklar framkvæmdir munu hafa neikvæð umhverfisáhrif í för með sér og er þar helst tiltekið áhrif á ásýnd, landslag og gróðurfar.

Sveitarstjórnin segir að áformuð framkvæmd sé í grundvallaratriðum í samræmi við aðalskipulag sveitarfélagsins.

Bent er á að efnisþörf úr Garpsdalsmel sé meiri en aðalskipulag geri ráð fyrir. Því sé ljóst að breyta þurfi aðalskipulagi sveitarfélagsins m.t.t. efnistökusvæða. „Mikilvægt er að fram komi ítarlegri lýsing á afmörkun efnistökusvæðis, á loftmynd og ásýndarmynd, þannig að skýrara verði hvert sé umfang efnistöku vegna framkvæmda.“

Þá er í umhverfismatsskýrslunni er fjallað um nokkra valkosti um legu jarðstrengs frá orkuvinnslusvæði að
tengivirki í Geiradal, en ekki tilgreindur aðalvalkostur framkvæmdaraðila eða samræmi valkosta við
Aðalskipulag Reykhólahrepps 2022-2034. Vill sveitarstjórnin láta bera saman helstu umhverfisáhrif jarðstrengs og loftlínu m.t.t. staðhátta, eins og boðað var í matsáætlun, m.a. þar sem ný raflína mun líklega fara um grannsvæði vatnsverndar.

Það skortir á umfjöllun um möguleg áhrif jarðstrengs á vatnafar og einnig sémikilvægt að gera grein fyrir fyrirkomulagi jarðstrengsþverunar yfir Bakkaá.

Um gróðurfar segir að Reykhólahreppur telur mikilvægt að það komi fram mat á heildarraski á vistgerðir með hátt og mjög hátt verndargildi. Sveitarfélagið óskar eftir því að birtar verði flatarmálstölur um rask. Auk þess þurfi að koma fram hvert sé heildarrask á votlendi vegna framkvæmda.

Reykhólahreppur telur mikilvægt að gerð verði grein fyrir áhrifum á ásýnd vegna vegagerðar, jarðstrengslagnar og efnistöku.

DEILA