Kampi: þriðjungsaukning á afköstum

Kampi. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Breytingar sem gerðar voru í sumar á rækjuverksmiðjunni auka afköst verksmiðjunnar verulega, en frystikerfi verksmiðjunnar og hluti framleiðslunnar voru uppfærð. Stefnt er að því að verksmiðjan geti pillað yfir 10.000 tonn af rækju á ári. Kristján Jón Guðmundsson skrifstofustjóri Kampa segir að síðustu ár hafi verið unnið um 7.500 tonn af rækju á ári svo aukningin er um þriðjungur. Hann segir að enginn vafi sé á því að tilkoma Polar Seafood og Brim og þar með meiri rækja til vinnslu styrki rekstur fyrirtækisins.

Rækjuverksmiðjum hefur fækkað mikið á undanförnum árum og eru t.d. aðeins þrjár eða fjórar starfandi hér á landi. Vel veiðist af rækju og er gott framboð af henni. Kristján Jón telur að Kampi muni eiga góðar birgðir af óunninni rækju um næstu áramót. Samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta er aðgengi að rækjuverksmiðju er orðinn helsti takmarkandi þáttur í framleiðslunni sem gerir vel búna verksmiðju eins og Kampa eftirsótta.

Samkvæmt ársreikningi Kampa fyrir 2023 varð hagnaður af rekstrinum 19 m.kr. Tekjur félagsins voru 1.138 m.kr. Eignir eru bókfærðar á 895 m.kr. og þar af eru 380 m.kr. eigið fé eða 42%. Laun og tengd gjöld voru 437 m.kr. og jukust um 21% milli ára. Ársverkin voru 38.

Fram kemur í skýrslu stjórnar að meginhluti framleiðslunnar er seldur erlendis. Mest er selt til Bretlands, Danmerkur og annarra Evrópulanda. Heildarframleiðsla árið 2023 var samtals um 2.600 tonn af afurðum samanborið við 2.200 tonn árið áður. Framleiðsluaukning á milli ára í magni er um 18%.

Stærstu eigendur eru Vestri ehf og Tjaldtangi ehf hvor með 25,5% og Birnir ehf með 14,4%. Ekki hefur verið gefið út hvað nýju eigendurnir eignast mikið í fyrirtækinu.

DEILA