Ísfirski knattspyrnumaðurinn Matthías Vilhjálmsson er í liði mánaðarins í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu samkvæmt whoscored.com. Landi hans, Björn Bergmann Sigurðsson, er einnig í liðinu.
Matthías skoraði í öllum þremur deildarleikjum Rosenborg í júlí, ásamt því að gefa eina stoðsendingu. Matthías var með 7.8 í meðaleinkunn fyrir leikina þrjá, en hann er markahæstur í liði Rosenborg á leiktíðinni með sjö mörk.
Björn Bergmann fékk 8,0 í meðaleinkunn fyrir frammistöðu sína með Molde í júlí. Hann skoraði tvö mörk í þremur leikjum og var tvisvar valinn maður leiksins hjá vefsíðunni. Björn hefur farið á kostum í deildinni í sumar og skoraði tíu mörk.