Ráðherra ferðamála vonast til þess að landeigendur og ríkisvaldið komist að samkomulagi um aðgangsstýringu að Hornströndum. Tæplega tvö hundruð farþegar fransks skemmtiferðaskips gengu á land í friðlandinu á sunnudag. „Ég hef sjálf nefnt að Hornstrandir séu dæmi um stað, og kannski helsta dæmið, þar sem þyrfti mögulega að koma á ákveðinni aðgangsstýringu, út af því hvernig svæðið er. Þetta svæði er í höndum einkaðila þannig að það er nú ekki þannig að ríkisvaldið sé með algjörlega frjálsar hendur í því, ég á ekki von á öðru en að mönnum takist að leysa úr þessu,“ sagði Þórdís Kolbrún í kvöldfréttum Sjónvarps í gær.