Vestri: tap á Hlíðarenda en mikil barátta

Knötturinn í marki Vals eftir þrumuskot Gunnars Jónasar Haukssonar. Skjáskot/Visir.is

Karlalið Vestra lék í gær á Hlíðarenda í Reykjavík við Val og mátti þola tap í miklum baráttuleik. Strax í byrjun leiks var einum varnarmanni Vestra vísað að velli og lék liðið einum færri nánast allan leikinn. Dómurinn um brottvikninguna var býsna harður og Davíð Smári Lamude þjálfari Vestrasagði eftir leikinn að rauða spjaldið hefði verið býsna ódýrt og bara galin ákvörðun. Davíð Smári sagði liðið hafa sýnt mikla baráttu og hafði aldrei gefist upp þrátt fyrir mótlætið.

Engu að síður náði Vestri forystunni á 12. mínútu með góðu marki Gunnars Jónasar Haukssonar. Valsmenn náðu að jafna leikinn fyrir leikhlé og sóttu svo ákaft í síðari hálfleik. Um miðjan seinni hálfleikinn náði Valur forystunni. undir lok leiksins fór Vestri að taka meiri áhættu og sækja og þegar komið var fram í uppbótartíma munaði litlu að liðið kæmist í áskjósanlegt færi en Valsmenn náðu boltanum og fóru í skyndisókn sem skilaði marki þar sem fáir voru til varnar. Lokatölur 3:1 fyrir Val.

Fylkir lék einnig í gær og tapaði sínum leik. Fyrir vikið er Vestri enn í 10. sæti og fyrir ofan fallsæti. HK er í 11. sæti með jafnmörg stig og Vestri og leikur í kvöld við Stjörnuna. Næsti leikur Vestra er á Ísafirði næsta sunnudag á Kerecis vellinum gegn Fylki. Fylkir er í neðasta deildarinnar einu stigi á eftir Vestra svo um er að ræða alvöru fallslag.

DEILA