Sandeyri: engar leirur og sjávarfitjar

Kort sem sýnir afstöðu kvínna undan Sandeyri, dýpi og fjarlægð frá landi. Kringur utan um kvíarnar er með 115 m radíus, en það er vegalengd frá stórstraumsfjöruborði sem tilheyri landareign.

Í gögnum kærumáls landeiganda Sandeyrar fyrir úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál eru ýmiss gögn sem varpa ljósi á samskipti kæranda við opinbera aðila.

Eitt af því sem Katrín Oddsdóttir, lögmaður Gunnars Arnar Haukssonar, landeiganda greip til var að á landi hans Sandeyri við Snæfjallaströnd væru leiru- eða sjávarfitjasvæði sem falli þar með skýrlega undir verndarákvæði 61. gr. náttúruverndarlaga. Óvissa væri um hvort byggingarframkvæmdin ( þ.e. útsetning eldiskvíanna undan Sandeyri) hefði áhrif á leirurnar og sjávarfitin og því yrði að framkvæma vettvangsrannsókn til þess að skera út um það.

Vísaði Katrín til svara frá Náttúrufræðistofnun Íslands sem sagði að ekki væri til skráningar og því ekki hægt að útiloka þessar vistgerðir væru til staðar á Sandeyri.

Þó segir í svari stofnunarinnar: „Við getum ekki staðfest að þarna sé um að ræða leiru- eða sjávarfitjasvæði. Samkvæmt vistgerðakorti Náttúrufræðistofnunar eru ekki skráðar leirur eða sjávarfitjar á Sandeyri.“

Húsnæðis- og mannvirkjastofnunin, sem gaf svo út byggingarleyfið fyrir kvíunum, sendi erindi til Arctic Fish og spurði hvort mat hefði farið fram á því hvort vistkerfi i formi sjávarfitja eða leira séu á svæðinu sem félagið sótti um byggingarleyfi.

Arctic Fish fékk Rorum til þess að svara erindinu. Í greinargerð Rorum kemur fram að sjávarfitjar séu aðeins skráðar á tveimur stöðum við Ísafjarðardjúp utan Jökulfjarða. Annars vegar innst í Skutulsfirði og hins vegar við Nauteyri. Fitjarnar séu í 15 km og 25 km fjarlægð frá eldissvæðinu. Þá séu leirur að finna á tveimur svæðum, við Kaldalón og við Nauteyri. Fjarlægð sé a.m.k. 15 km frá eldissvæðinu. Þá beri að hafa í huga að sjávarfitjar og leirur séu við fjöruborð en kvíarnar séu í a.m.k. 40 metra dýpi og þaðan af meira.

„Það er því með öllu ómögulegt að slík mannvirki geti með nokkru móti haft áhrif á vistgerðirnar sjavarfitjar og leirur.“ segir í svari Rorum.

Ekki verður séð að frekar hafi verið rætt um þetta atriði eftir þessi afgerandi svör frá Rorum ehf.

Húsnæðis og mannvirkjastofnun endaði svo á því að tilkynnan landeigandanum að eldið væri utan landareignar hans og hann því ekki aðili máls og gaf út í framhaldinu byggingarleyfið fyrir eldiskvíarnar. Sem var svo staðfest með niðurstöðu úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál í síðustu viku.

Lögmaðurinn hélt engu að síður áfram tilraunum sínum til þess að stöðvar framgang leyfisveitingarinnar. Krafðist þess tvívegis að umboðsmaður Alþingis tæki málið til skoðunar, krafðist þess að HMS afturkallaði útgefið leyfi og gerði einnig kröfu á Skipulagsstofnun um að stöðva málið. Allt var þetta árangurslaust. Umboðsmaður Alþingis sagðist ekki geta tekið fyrir mál sem væru ekki útkljáð í stjórnkerfinu og kæruréttur væri til staðar. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafnaði því að afturkalla byggingarleyfið , sagði það vera í samræmi við lög og að kærandi væri ekki málsaðili. Ekkert að að finna um svör Skipulagsstofnunar en væntanlega hefur stofnunin ekkert aðhafst.

DEILA