Veðurstofa Íslands gaf í dag út gula viðvörun fyrir Breiðafjörð, Vestfirði og Strandir. Gildir hún til kl 2 í nótt en þó lengur á Ströndum eða til kl 5 í nótt.
Á Vestfjörðum og við Breiðafjörð er varað við norðan 13-20 m/s vindi og vindhviður staðbundið kringum 30 m/s, hvassast norðantil. Varasamt ökutækjum sem taka á sig mikinn vind.
Á Ströndum er varað við talsverðri eða mikilli rigningu, Vatnsborð í ám og lækjum mun vaxa talsvert og vöð og árfarvegir geta því orðið varasöm. Einnig aukast líkur á aurskriðum og grjóthruni, ferðamenn ættu að forðast brattar fjallshlíðar segir í viðvörun Veðurstofunnar.
Klukkan 18 í dag, föstudag, hafði verið tilkynnt um grjóthrun og aurskriður utan við Suðureyri í Súgandafirði, í Tungudal innan við Ísafjörð, í Breiðadal í Önundarfirði.