Tónleikaröðin Sjö dagana sæla hóf göngu sína á sunnudag í Tjöruhúsinu í Neðstakaupstað, annað árið í röð. Skúli mennski Þórðarson stígur á stokk sjö kvöld í röð að loknu borðhaldi ásamt einstökum gestum. Skúli segir enga sérstaka ástæðu fyrir því að hann haldi þessa sérstæðu tónleikaröð í Tjöruhúsinu í ár líkt og í fyrra. „Það er bara að koma heim til Ísafjarðar og njóta lífsins og spila í skemmtilegu húsi. Tjöruhúsið er lifandi rými og það tekst undantekningarlaust að ná upp góðri stemningu í húsinu,“ segir Skúli.
Meðal gesta Skúla er dúettinn Between Mountains sem sigraði Músíktilraunir í vor, en þær verða gestir Skúla á fimmtudagskvöld.
„Daníel Helgason gítarleikari verður með mér öll kvöld og Una Stefánsdóttir söngkona verður með okkur frá og með fimmtudeginum og Lilja Björk júrúvisjónfari ætti að detta inn einhvern tímann í vikunni.“
Á föstudagskvöld verður spunasett með Unu Sveinbjarnardóttur fiðluleikara og Daníel gítarleikara og tónleikaröðin endar með feiknarballi á laugardagskvöldið þar sem Skúli verður með fullskipaða hljómsveit sér til fulltingis.
Næst á döfinni hjá Skúla að loknum sjö dögum sælum í Tjöruhúsinu eru landvinningar á Norðurlöndum. „Það er Skandinavíutúr í september. Við verðum tveir á ferð, ég og Danni gítaristi og verðum aðallega í Noregi og Danmörku og ætlum að reyna að troða Svíþjóð inn í túrinn,“ segir Skúli að lokum.