Gönguhátíð í Súðavík

Hinn tignarlegi Kofri.

Gönguhátíð verður haldin í Súðavík um verslunarmannahelgina og er hún ætluð fyrir fólk á öllum aldri. Hátíðin er haldin í samvinnu Súðavíkurhrepps, Göngufélags Súðavíkur, gönguklúbbsins Vesens og vergangs og Eyvindar ehf. Í göngunum gefst fólki kostur á að fara um vestfirskt landslag í fylgd heimamanna, þar sem sagt verður frá örnefnum og sagðar sögur sem tengjast landslaginu og lífinu á svæðinu fyrr og nú.

Stefnt er á morgun-, miðdegis-, síðdegis- og kvöldgöngur á hina ýmsu staði í Álftafirði og nágrenni í fallegu landslagi við Ísafjarðardjúpið. Í undirbúningi eru göngur á Kofra, í Valagil, úr Skötufirði yfir í Heydal, um Hvítanes í Skötufirði, um Skákina milli Sauradals og Arnardals, upp í Naustahvilft, á Sauratinda og um Þjófaskörð á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur. Auk þess verða skipulagðar styttri göngur í þorpinu sjálfu og hægt að fara í göngur á svæðinu og nota Wapp – Walking app leiðsagnarappið í símanum.

DEILA