Fá Vestfirðingar þá að selja laxeldisleyfin?

Frá undirritum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.

Ríkið hefur lagt Keldnalandið inn í fyrirtækið Betri samgöngur ohf. sem það á með nokkrum sveitarfélögum. Mun allur ábati af þróun og sölu landsins renna óskertur til verkefna samgöngusáttmálans á höfuðborgarsvæðinu. Í kynningarefni sem birt var í gær vegna svokallaðrar uppfærslu sáttmálans segir að gert sé ráð fyrir að ábatinn af sölu og þróun svæðisins verði um 50 milljarðar kr. á samningstímanum.

Öll fjárhæðin rennur til samgönguverkefna á höfuðborgarsvæðinu. Við sem búum á Vestfjörðum og eigum okkar hlut í ríkiseigninni fáum ekkert af söluverðmætinu til verkefna hjá okkur. Öll landsbyggðin fær ekkert.

Jæja, hvernig er það þá með eign ríkisins, vestfirsku firðina utan netlaga, þar sem búið er að úthluta leyfum fyrir laxeldi í sjó? Ef sú ógeðfellda tillaga ráðherra Vinstri grænna frá því á síðasta vetri, að breyta leyfunum í ótímabundin leyfi, sem leyfishafa mega selja hæstbjóðanda verði hrint í framkvæmd á þann veg að ríkið seldi leyfin, væri þá ekki rétt og í samræmi við ráðstöfun Keldnalandsins að allar tekjur af sölu eldisleyfa á Vestfjörðum renni til samgönguframkvæmda á Vestfjörðum? Það hlýtur að vera.

Þá er það spurningin : hvað væri líklegt að fengist fyrir leyfin. Þar höfuð við ekki mikið við að styðjast í viðskiptum innanlands. En í Noregi hafa nokkur uppboð farið fram eins og lesa má á bb.is. Verðið er um 4 m.kr. fyrir hvert tonn í framleiðslu.

Hafa verður í huga að eldisskilyrði í Noregi eru mun betri en á Íslandi. Vaxtarhraði eldisfisksins er mun meiri þar sem sjórinn er hlýrri. Svo eru fyrirtækin sem kaupa heimildir mun stærri í Noregi en hér á landi og þau hafa fyrir heimildir sem fengust án uppboðs og þau geta því dreift verði keyptra heimilda á tekjur af þeim heimildum sem fyrir eru. Bæði þessi atriði gera það að verkum að ætla má að verð hér á landi verði mun lægra en í Noregi. Andstæðingar laxeldis hér á landi svo sem hjá verndarsjóði villtra laxastofna og íslenska náttúruverndarsjóðsins eru ósammála þessu og halda því fram að verðið hér á landi sé það sama og í Noregi. Svo þetta er umdeilt.

165 milljarðar króna eða 330 milljarðar króna

Í fjörðum Vestfjarða er burðarþolsmatið 82.500 tonn fyrir sjókvíaeldið. Að því gefnu að það verði allt laxeldi má því ætla að það fengjust 330 milljarðar króna fyrir söluna miðað við 4 m.kr. pr. tonnið. Ef til varúðar er gert ráð fyrir aðeins helmingi þess, fengjust samt 165 milljarðar króna. Svo fengjust að auki árlegar greiðslur eldisfyrirtækjanna sem munu nema háum fjárhæðum, svo sem fiskeldisgjald o.s.frv.

Jafnvel þótt aðeins sé horft til lægri upphæðarinnar þá munu 165 milljarðar króna duga fyrir öllum samgönguframkvæmdum, þar með talið jarðgöngum, sem sett hefur veri fram krafa um og örugglega verða samt eftir myndarlegur afgangur.

Kostnaður við fimm jarðgöng á Vestfjörðum sem lögð eru til í jarðgangaáætlun ríkisstjórnarinnar, er um 80 milljarðar króna. Það eru göng í gegnum Klettháls, Mikladal, Hálfdán, breikkum Vestfjarðaganga og göng til Súðavíkur. Þá eru samt eftir helmingur væntanlegs söluandvirðis. Nóg eftir fyrir veg um Veiðileysuháls og Naustaskörð, um Arnarfjörð frá Bíldudal að Dynjandisheiði og meira og meira. Og samt nóg eftir.

Er það þá ekki leiðin að stofna ohf. um eldisleyfin og þá rennur andvirðið allt til framkvæmda á Vestfjörðum. Og allir kátir?

-k

DEILA