Vikuviðtalið: Gerður Björk Sveinsdóttir

Ég er fædd í Reykjavík árið 1977 og er elst fjögurra systkina. Þegar ég var sex ára gömul fluttumst við fjölskyldan í Stykkishólm þar sem ég bjó öll mín uppvaxtarár. Frá þeim tíma á ég ótrúlega margar góðar minningar og vini, þar sem nóg var um að vera fyrir alla. Snæfell á fljúgandi siglingu og allir æfðu körfu, ég æfði auðvitað körfu eins og hinir en var aldrei neitt sérstaklega góð í henni, mín íþrótt voru frjálsar, hástökk, langstökk og spretthlaup, þar fékk ég aðeins að skína og nota ég auðvitað hvert tækifæri til að monta mig af því.

Þar var líka mjög virkt tónlistarstarf og æfði ég og spilaði á þverflautu með lúðrasveit Stykkishólms. Árið 1988, þegar ég var ellefu ára fór ég með lúðrasveitinni til Rostoc í Austur Þýskalandi, það var svo sannarlega mikil upplifun, bæði var ég að fara erlendis  í fyrsta skiptið og eins fékk ég að upplifa það að fara til Þýskalands áður en múrinn féll. Þessi ferð situr mjög fast í minningunni.  Fjölskyldan mín fór öll með í ferðina, mamma saumaði nokkur dress á okkur krakkana og ég held svei mér þá að það hafi verið byrjað að pakka niður í tösku um mánuði áður en við lögðum af stað, svo mikil var eftirvæntingin.  

Í Stykkishólmi blómstruðu líka ólík trúarbrögð sem við krakkarnir tókum virkan þátt í, við mættum í Fíladelfíu söfnuðinn þar sem við fengum jesúmyndir og hlustuðum á orð guðs. Við tókum einnig þátt í messum hjá kaþólsku nunnunum á St. Franciskuspítalanum þar sem við gengum um í hvítum kuflum með reykelsi. Þetta var bara hluti af okkar menningu og uppvexti og er ég þakklát fyrir það og ekki má nú gleyma stúkustarfinu í Stykkishólmi en þar hélt Árni Helgason um taumana þar sem hann hélt uppi öflugu starfi, þar sem krakkarnir í hólminum tókum virkan þátt.

Í Stykkishólmi fékk ég líka að spreyta mig á fjölbreyttum vinnustöðum, ég stóð við færiband og pillaði rækju og vann í skelinni hjá Sigurðu Ágústssyni. Ég vann líka í kræklingi í aukavinnu meðfram vinnu hjá Sýslumanni í Stykkishólmi þar sem ökuskírteinin voru enn plöstuð í plastvél og unnin í ritvél. Vegabréfin voru líka búin til á staðnum við frekar frumstæð skilyrði myndi einhver segja.

Það var smá flandur á mér í framhaldsskóla, á þessum tíma var í boði að taka fyrsta árið í Stykkishólmi sem ég gerði en fór svo suður til Reykjavíkur þar sem ég tók annað árið í Ármúla, þriðja árið tók ég á Akranesi þar sem ég bjó á heimavist en fór svo aftur suður og tók fjórða árið í Ármúla, en til að flækja þetta enn meira þá var námið mitt í Ármúla metið inn á Akranesi og útskrifaðist ég þaðan.  Eftir menntaskólann lá leið mín til  Austurríkis þar sem ég bjó í eitt á og lærði þýsku, vann á lúxushóteli í Austurrísku Ölpunum og starfaði svo sem þjónn á glæsilegum golfvelli við Salzburg. Ég er mjög þakklát fyrir það að hafa fengið að upplifa aðra menningu og tungumál fyrir tíma internets og snjallsíma.

Þegar heim var komið kynnist ég manninum mínum, Davíð Páli Bredesen en hann er uppalinn á Patreksfirði en var á þessum tíma á sjó frá Rifi á Snæfellsnesi. Við ákváðum fljótlega að flytja til Patreksfjarðar og bjuggum við þar árin 1999 – 2004 og á þeim tíma vann ég fyrst hjá sýslumanni og svo við kennslu við grunnskólann, þar sem ég var umsjónarkennari 8. bekkjar og kenndi jafnframt samfélagsfræði í 10. bekk, þó svo að reynslan í skólanum hafi verið mjög góð áttaði ég mig á því að ég myndi ekki fara í kennaraháskólann og fann út að ég væri örugglega góð í einhverju viðskiptafræðitengdu enda alltaf haft gaman að stærðfræði og raungreinum.

Árið 2002 eignumst við dóttir okkar hana Rakel Jónu, fæddist hún á sjúkrahúsinu á Patreksfirði og er ein af síðustu börnum sem fæðast þar. Árið 2004 fæðist eldri sonur okkar, Ísak Ernir á Landspítalanum í Reykjavík en þá vorum við flutt á Álftanes og ég byrjuð í námi í viðskiptafræði við háskóla Íslands.

Árið 2008 klára ég námið og hef störf hjá endurskoðunarfyrirtækinu Deloitte og samhliða því fer ég í mastersnám í reikningshaldi og endurskoðun við háskóla Íslands sem ég lýk árið 2011.

Á þessum tímapunkti var orðið ansi mikið að gera hjá mér og Davíð var komin á sjó fyrir vestan þar sem hann keyrði á milli heimilis og vinnu reglulega. Við áttum von á þriðja barninu okkar honum Ólafi Inga og gátum vel hugsað okkur að hægja aðeins á lífinu og hafði það líka áhrif að tengdamóðir mín hún Bára Pálsdóttir lagði hart að okkur að koma aftur vestur á Patreksfjörð. Við tókum því ákvörðun um að bjóða í hús sem var eign ríkiskaupa og var ekki í hefðbundnu söluferli heldur var tilboðum í eignina skilað inn fyrir ákveðna dagsetningu og hæsta tilboði tekið. Við buðum 18,1 milljón í húsið óséð og fengum (sprengdum markaðinn á þeim tíma, sem betur fer hefur mikið breyst síðan þá), nú voru góð ráð dýr og ekki annað í boði en að setja allt af stað og skipuleggja flutning vestur.

Haustið 2011 flytjum við vestur og höfum ekki séð eftir því í eina mínútu. Hér höfum við komið okkur vel fyrir og eigum góða vini. Samfélagið er einstakt þar sem samkenndin er mikil og ef að eitthvað bjátar á þá eru allir tilbúnir til þess að rétta fram hjálparhönd. Hér er líka mikil hefð fyrir félagsstarfsemi og eru flest allir virkir félagsmenn í einhverjum félagsskap. Það er til dæmis alveg einstakt starf sem er unnið hjá Slysavarnardeildinni Unni sem er ein fjölmennasta slysavarnardeild landsins með ótrúlega dreifan aldur og mikla nýliðun. Lions klúbburinn er annað dæmi um mjög virkan félagsskap sem er ómetanlegur fyrir samfélagið og hefur styrkt fjöldamörg verkefni á svæðinu.  Það eru auðvitað mikið meira í gangi og eru þetta bara tvö dæmi um öflugan félagsskap á svæðinu.

Það er líka svo gaman að því hvað þorpin hér á sunnanverðum Vestfjörðum eru ólík og hvert og eitt með sinn sjarma og karakter fyrir utan þá stórfenglegu náttúruparadísir sem eru hér allt um kring.

Fljótlega eftir að ég flyt vestur fer ég að líta í kringum mig hvað sé í boði fyrir mig að gera, ég sé auglýst starf skrifstofustjóra Tálknafjarðarhrepps sem ég sæki um og fæ. Í þrjú ár keyrði ég yfir til Tálknafjarðar þar sem ég kynntist Tálknfirðingum og lærði inná stjórnsýsluna. Þar öðlaðist ég dýrmæta reynslu sem hefur svo sannarlega komið sér vel.

Árið 2016 sé ég auglýst starf verkefnastjóra samfélagsuppbyggingar hjá Vesturbyggð sem mér fannst ótrúlega spennandi enda mikið um að vera á svæðinu og í mörg horn að líta. Ég fékk það starf og hef verið hjá Vesturbyggð sem nú er orðið sameinað sveitarfélag Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar síðan þá. Þegar þetta er ritað hef ég sinnt þremur störfum hjá Vesturbyggð, fyrst sem verkefnastjóri, svo árið 2019 tek ég við starfi sviðsstjóra stjórnsýslu og fjármálasviðs og núna síðast í vor tek ég við sem bæjarstjóri sameinaðs sveitarfélags og líður mér pínu þannig að hringnum hafi verið lokað, frá því að ég hóf störf sem skrifstofustjóri Tálknafjarðarhrepps.

Starf bæjarstjóra finnst mér bæði fjölbreytt og krefjandi en fyrst og fremst finnst mér það ótrúlega skemmtilegt og er engin dagur er eins. Ég hef nú ekki sinnt starfinu lengi en mörg verkefni þekki ég vel úr mínu fyrra starfi og þekki stjórnsýsluna orðið ansi vel, það sem breytist er nálgunin. Í starfinu fæ ég líka tækifæri til að hitta mikið af skemmtilegu fólki og kynnst því góða starfi sem unnið er í sveitarfélaginu.

Fyrir um tveimur árum fórum við hjónin að stunda golf af einhverju ráði og er ég orðin forfallinn golfsjúklingur sem ætti kannski að skila sér í lægri forgjöf en ég er að reyna að læra að vera  þolinmóð þar sem sagt er að góðir hlutir gerist hægt, en þolinmæði er kannski ekki mín sterka hlið, allavega ekki þegar kemur að sjálfri mér.   Ég hef líka mjög gaman að því að ganga á fjöll og ætla mér að gera meira af því en göngurnar hafa aðeins þurft að víkja fyrir golfáhuganum undanfarið.   Mér finnst líka voða notalegt að leggjast upp í sófa að loknum strembnum degi og horfa á svo sem eins og eitt stykki þátt þar sem ég þarf ekki að hugsa neitt. Annars hef ég bara almennt gaman af lífinu, verja tíma með fjölskyldunni og fólkinu í kringum mig.

DEILA