Björgunarsveitin Dagrenning á Hólmavík er að byggja nýtt hús yfir starfsemi sína. Verður það 240 fermetrar að stærð. Andri Hrafn Ásgeirsson, formaður sveitarinnar sagði í samtali við Bæjarins besta að framkvæmdir gengju vel. Búið er að steypa sökkla og botnplatan verður steypt næstu daga. Húseiningarnar eru komnar vestur, en þær eru frá Límtré Vírneti og eru smiðaðar á Flúðum. Andri segir að stefnan sé að húsið verði tilbúið í haust. Gamla húsið hefur verið selt og er afhending á því 15. desember næstkomandi. Gert er ráð fyrir að kostnaður verði um 40 m.kr. Andri segir að vel hafi gengið að afla fjár fyrir kostnaðinum. Gamla húsið var selt og þá tók sveitin að sér að rífa út úr húsi Hólmadrangs og fékk greitt fyrir það. Eins hafi Sparisjóður Strandamanna verið hjálplegur við fjármögnun og veitt góð lánakjör. Andri segir að það sem eftir standi af kostnaði verði vel viðráðanlegt fyrir björgunarsveitina.
Þá hefur sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkt að veita styrk á móti gatnagerðargjöldum og öðrum gjöldum sveitarfélagsins sem tengjast nýbyggingu Björgunarsveitarinnar.
Andri Hrafn Ásgeirsson í stafni björgunarbátsins.
Andri Hrafn vildi koma að þökkum til annarrar stjórnarmanna og félaga í sveitinni fyrir veitta aðstoð og dugnað við þessa uppbyggingu björgunarsveitarinnar. Auk húsabyggingarinnar endurnýjaði sveitin gúmmibát sveitarinnar og er nýi báturinn kominn í notkun.
Félagar Björgunarsveitarinnar Dagrenningar Hólmavík eru ríflega 100 talsins og þar af eru 46 á útkallslista.
Í lok ágúst, þann 29. verður almennur félagsfundur verður haldinn í kvenfélagshúsinu og hefst fundurinn kl. 20:00. Rætt verður um verkefni vetrarins og gerð grein fyrir húsbyggingunni.
Gamla aðstaðan á Hólmavík.
Frá framkvæmdum við húsgrunninn.