Vilja auka öryggi skólabarna frá Barðaströnd

Staparnir á Raknadalshlíð í vetrarbúningi. Mynd: Rannveig Haraldsdóttir.

Heimastjórn fyrrum Barðastrandar- og Rauðasandshrepps samþykkti á síðasta fundi sínum ályktun um öryggi skólabarna. Fer heimastjórnin fram á að bæjarstjórn Vesturbyggðar beiti sér fyrir auknu öryggi vegfarenda um Barðaströnd og yfir á Patreksfjörð. „Á þessari leið þarf með ýmsum hætti að bæta öryggi skólabarna sem þurfa að fara þennan veg alla virka daga“ segir í ályktuninni.

Þá segir eftirfarandi:

Á þessari leið þarf með ýmsum hætti að bæta öryggi skólabarna sem þurfa að fara þennan veg alla virka daga sem og auðvitað annarra vegfarenda. Þó svo að vegamál heyri ekki beint undir sveitarfélagið þá eru skólar á þeirra vegum og þar sem það eina sem er í boði fyrir þessi börn er að fara um fjallvegi til að komast í skóla teljum við grundvallaratriði að það sé reynt að gera það sem hægt er til að öryggi þeirra á leiðinni sé tryggt.
Það sem þarf að gera til að auka öryggi á leiðinni er eftirfarandi :

  1. Vindmælar á Barðaströnd
    Við skorum á Vegagerðina að hraða uppsetningu vindmæla á Barðaströnd þar sem eru þekktir vindhviðustaðir sem reynst hafa hættulegir. Þar er helst að nefna Hvammshlíðina (Grafahlíð), Skjaldvararfoss og við Hrísnes. Óhöpp hafa orðið á þessum þekktu vindhviðustöðum á Barðaströnd þó ekki hafi orðið alvarleg slys og því brýnt að bílstjórar geti verið upplýstir um þessa hættu til að geta hagað ferðum sínum með tilliti til öryggis.
    Mikilvægt er að fá vindmæla setta upp sem allra fyrst til að unnt sé að fylgja viðmiðum Samgöngustofu um öryggi á vegum fyrir skólaakstur.
    Næsti vindmælir er við veginn yfir Kleifaheiði en upplýsingar frá honum gefa litlar vísbendingar um vindstyrk á þekktum stöðum á Barðaströnd þar sem verstu vindáttir á Barðaströnd mælast ekki á vindmælinum á Kleifaheiði.
    Eins og staðan er í dag en enginn vindmælir á Barðaströnd en með því að hafa mæli yrði ákvarðanataka um skólaakstur auðveldari með tilliti til öryggis.
  2. Vegrið
    Nauðsynlegt er að setja vegrið á Raknadalshlíð sem og niður Kleifaheiði að vestanverðu, á þessum stöðum er mjög hátt fall niður ef bílar fara útaf vegi. Á Raknadalshlíð er að auki sjór beint fyrir neðan og aðdjúpt og á Kleifaheiði vestanverðri er veghalli rangur á kafla sem er hættulegt þegar ekið er í hálku.
  3. Vegaeftirlit fyrir klukkan 7:00
    Við bendum á nauðsyn þess að ástand vega á leið skólabíls frá Barðaströnd sé kannað fyrir klukkan 7:00 þannig að skólabíllinn sé ekki að fara af stað og þurfa svo jafnvel að bíða tímunum saman eftir mokstri með börnin í bílnum.
  4. Símasamband
    Allt of stór partur af leiðinni er með mjög lélegu eða engu farsímasambandi. Segja má að nánast ekkert farsímasamband sé frá Stöpunum í Patreksfirði og langleiðina upp á Kleifaheiði að vestanverðu og eins er mjög slitrótt samband frá Haukabergsánni og að Hrísnesi.
DEILA