Velheppnað námskeið Tungumálatöfra á Flateyri

Sunnudaginn 11. ágúst síðastliðinn lauk vel heppnuðu námskeiði Tungumálatöfra sem haldið var í Grunnskóla Önundarfjarðar á Flateyri og í náttúrunni þar í kring. Námskeiðið var vel sótt af börnum á aldrinum 5-14 ára sem eiga hin ýmsu tungumál að móðurmáli m.a. kínversku, ensku, taílensku, pólsku, úkraínsku, eistnesku, frönsku og íslensku. Á námskeiðinu fengu börnin tækifæri til þess að kynnast hvert öðru í gegnum skapandi útivist, myndlist og tónlist og þjálfa íslenskuna sína í leiðinni. Í ár var unnið með þema sem tengist hafinu þar sem börnin notuðu hugmyndaflug sitt við listsköpun og leiki.

Margt var brasað og brallað. Farið var í skógarferð og berjatínslu, búið var til salt með þurrkuðum þara og leikið á ströndinni í Holti. Lag var samið um hina ýmsu íbúa hafsins og búin til sjávardýr á priki sem fylgdu börnunum í töfragöngunni á lokadegi námskeiðsins en að venju lauk námskeiðinu með töfragöngu og matarupplifun þar sem foreldrar og börn komu með mat frá ólíkum heimshornum.

DEILA