Haukadalur: Ariasman fyrir fullu húsi

Elfar Logi á sviðinu í Haukadal.

Á fimmtudagskvöldið lagði Bæjarins besta leið sína vestur í Dýrafjörð og þar alla leið út í Haukadal. Erindið var að sjá sýninguna Ariasman sem er á fjölunum í Samkomuhúsinu í Haukadal. Húsið var reist 1936 og er enn í góðu ástandi að því best verður séð. Félagarnir í ungmennafélaginu Gísli Súrsson voru stórhuga þegar ákveðið var að reisa samkomuhús í dalnum og unnu verk sitt vel.

Að sönnu tekur salurinn ekki marga í sæti en þó eitthvað á fjórða tuginn og hvert sæti var skipað þegar sýningin hófst. Ariasman var enn á ný sýndur fyrir fullu húsi. Næsta sýning verður aukasýning miðvikudaginn 21. ágúst.

Ariasman er líklega basneskt nafn á sýslumanninum Ara Magnússyni í Ögri. Leikverkið er unnið upp úr bók Tapio Koivukari sem heitir einmitt Ariasman.

Tapio er finnskur, talar íslensku, bjó um árabil á Ísafirði og er kvæntur ísfirskri konu Huldu Leifsdóttur. Bókin fjallar um Baskavígin 1615 þar sem um 30 manns af um 80 Böskum voru drepnir á norðanverðum Vestfjörðum að undirlagi Ara í Ögri. Aðalheimildin er rit Jóns lærða Guðmundssonar frá Ófeigsfirði en hann bjó við Steingrímsfjörð þegar atburðirnir urðu, sem eru tilefni verksins. Baskarnir, sem voru hér á hvalveiðum og bræddu lýsi í Steingrímsfirði, misstu skip sín í óveðri að hausti og urðu skipreika hér á landi. Jón hafði kynnst þeim og tók afstöðu með skipbrotsmönnunum og fannst drápin vera níðingsverk. Uppskar hann óvild Ara í Ögri og mátti þola erfiða daga fyrir.

Tapio skrifaði um þessa atburði og lagði sig fram um að leita að heimildum um þá og víst er að í gegnum leikverkið skín afstaða um óhæfuverk gegn Böskunum og ekki eykst hróður Ara í Ögri við frásögnina.

Elfar Logi Hannesson leikur eina hlutverkið og það reynir verulega á hvern leikara að gera því skil en ferst það vel úr hendi og mátti heyra saumnál detta meðan á sýningunni stóð og í lok hennar var Elfari vel fagnað.

Kómedíuleikhúsið var stofnað 1997 og hefur verið starfandi á Vestfjörðum í rúman aldarfjórðung. Þar hafa verið sett um meira en 50 leikverk og enn er þar margt um að vera. Það er mikið þrekvirki að halda þessu gangandi allan þennan tíma og á Elfar Logi Hannesson lof skilið fyrir þrautseigjuna.

Í gær var fjölskyldu- og barnasýning í Haukadal þar sem fjölmiðakonan Sirrý las upp úr barnabókum sínum ,,Tröllastrákur læknar hrekkjusvín” og ,,Saga finnur fjársjóð – og bætir heiminn í leiðinni”.

Uppfært kl 11:09. Borist hefur ábending um að það hafi verið kvenfélagið Hugrún í Haukadal sem stóð fyrir byggingu samkomuhússins.

Samkomuhúsið í Haukadal þar sem Komedíuleikhúsið er til húsa. Fjær er gamla skólahúsið, en það er steinsteypt.

Samkomuhúsið er veglegt og með sviði. Í dalnum bjuggu þá um 100 manns og margar hendur tilbúnar að leggja gjörva hönd á plóg fyrir ungmennafélagið. Og hvað gat það heitið annað en Gísli Súrsson?

Á Haukadalsbótinni fyrir utan dalinn eru laxeldiskvíar og sjá mátti um kvöldið merki um þróttmikið atvinnulíf sem er að snúa Vestfjörðum í sóknarhug.

-k

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

DEILA