Ég virðist vera fastvaxinn við heimsins rass, en hef þó ávallt unað mér vel þar.
Ólst upp við landamæri Bæjaralands og Bæheims/Tékklands, í uppsveitum svo að segja. Þar sem vatnaskilin eru milli Norðursjávar og Svartahafs og hægt að hoppa yfir fjögur stórfljót á einum degi.
Svæðið gékk þá undir nafni bayrisch Sibirien. Á þeim tíma var járntjald bæði norður og austur fyrir. Og stærsti heræfingarstöð Bandaríkjamanna í Vestur-Evrópu í tíu kílómetra fjarlægð. Þar æfa nú Úkraínumenn að stýra nýju skriðdrekunum. Með falli járntjaldsins er það allt í einu orðið miðsvæðis, næstum í alfaraleið, ekki þekkjanleg frá því sem var, samt vissulega þar mesti fjöldi úlfa í öllu ríkinu. Skógurinn fer hvergi þó járntjöld falla.
Það er sagt að þurfi heilt þorp til að ala upp barn og ég átti heilt þorp og er þakklátur fyrir því.
Samt fór ég í nám jafn langt að heiman og ég komst á sambands-LÍN, í Kíl við Eystrasaltið – og ég var þakklátur fyrir því. Mér var sagt að það væri við heimsins rass og ég svaraði fullum hálsi að ég þekki þar til enda alinn upp hinum megin á rassinum.
Á námsárum kom ég í eitt ár, í raun eitt og hálft ár, til Íslands, 1987-1989. Mér var það dýrmætur tími, ekki síðst með það í huga að meta allt það sem hefur breytst síðan þá. Maður skilur ekki hve mikið landið hefur blómstrað nema að hafa upplifað það á árum áður.
Eftir námslok, í upphaf tíunda áratugarins, vann ég í litlu forlagi í Kíl, þegar ég fékk símhringingu og mér bauðst staða við Háskólann í Greifswald. Lukkupotturinn? Nú, það var hálf staða á austantjaldslaunum, enga íbúð að fá, búandi til skiptis í niðurrifshúsum, í barnaherbergjum hjá kollegum, og í óupphituðu sumarhúsi, enginn sími í fimm ár og sem verr var, ekki þvottavél heldur. Staðurinn í heild í niðurníðslu. Mest þekktur fyrir kjarnorkuverið, og jafnvel það lokað. En hvaða forréttindi að vera á þessum stað við þessi tímamót. Það býðst ekki öllum að mega fylgjast með sögulegum stórviðburðum í rauntíma á raunstað. Hvaða kjarkur, hvaða bjartsýni í fólki. Þó, jú, það var búið að segja upp öllum akademískum starfsmönnum í öllu fv. Alþýðulýðveldinu mánuði áður en ég hóf störfum þar. Fátt um leiðbeinendur til að ræða doktorsritgerð til að byrja með. Miklar rannsóknir vegna njósna, allir virtust hafa njósnað um alla, tortryggni á alla boga, jarðsprengjusvæði. Erfitt að feta sig sem útlendingur, aðkomumaður. Nú er staðurinn í blóma og varla þekkjanlegur aftur. Fimm ár sem mótuðu mig og kenndu mér að stíga varlega til jarðar enda ekki alltaf allt sem sýnist.
1997 kom ég til baka til Háskóla Íslands, fyrst sem sendikennari, svo var ég á tímabili forstöðumaður tungumálamiðstöðvar HÍ og svo stundakennari meðan ég var forstöðumaður Goethe Zentrums Reykjavík. 2005 bauðst mér á sama dag fastráðning við Hí og stöðu forstöðumanns Háskólaseturs Vestfjarða, sem þá var formlega skilgreint sem tilraunaverkefni. Ég valdi áhættu fyrir öryggi, við heimsins rass. Ég hef aldrei séð eftir því, hef unað mér hér vel síðan, hvern einasta dag.
Það býðst ekki öllum að mega vera með í að byggja upp stofnun á háskólastigi. Það eru forréttindi að kynnast öllu fólkinu sem streymir hér í gegn, nemendum, rannsóknarmönnum, kennurum, kollegum úr öllum áttum. Það eru forréttindi að vera daglega í endurmenntun við að hlusta á allt þetta fólk, setja það í samhengi innbyrðis og við heimamenn, læra daglega eitthvað nýtt og mega gefa af sér. Það eru forréttindi að mega búa í fallegu umhverfi, á fallegum stað í Önundarfirði. Og það eru forréttindi að fylgjast með hvernig einn staður af öðrum breytist úr heimsins rass í blómlega byggð. Vestfirðir eru í blóma og varla þekkjanleg frá því sem var á tímum verbúða.
Hér þarf ég varla að fara í sumarfrí, enda bý ég á stað þar sem aðrir eru í sumarfríinu. Ég er ekki sérlega ferðaglaður, fer stundum með google earth um heiminnn og með flakk.is um Ísland. Vildi alltaf ferðast til Búkóvínu, en hún er í Úkraínu og erfitt að ferðast þangað þessa daga. Ég er kominn með gróðurhús og hef gaman af, ég er af bændum kominn. Blómleg byggð byrjar með að sá fræjum. Nei, ég er ekki neitt í íþróttum, hef aldrei verið. Við eigum að keppa við okkur sjálf og frekar spila með öðrum og ekki á móti þeim. Ég er ekki einu sinni í súdóku eða þess háttar, mundi frekar taka mig til og þýða ljóð, það er flóknara. Að ferðast í heimi ljóða eru forréttindi, ekki að gleyma.
Og svo uni ég vel hag mínum þar sem ég horfi út yfir fjörðinn, þar sem vatnið og sandurinn keppast, vindur leikur sér við skýin, straumar og steinar nuddast. Ólympiuleikar náttúru. Ég á ekki sjónvarp og hef áldrei átt. Nú í dag eru til fancy heiti eins og núvitund, sem ég hef aldrei skilið hvað merkir nákvæmlega. Ég kalla það bara að gera ekki neitt. Það er stundum alveg nóg.
Ávallt að víkja, aldrei að hemla. Stundum þarf vissulega að sofa – og gera ekki neitt.