Lagt hefur verið fram yfirlit yfir tekjur og gjöld Ísafjarðarbæjar á fyrri hluta ársins. Niðurstaðan fyrir bæjarsjóð og stofnanir er að afgangur frá rekstri er 796 m.kr sem er 143 m.kr. betri afkoma en fjárhagsáætlunin fyrir 2024 gerði ráð fyrir.
Það eru einkum þjónustutekjur sem eru umfram áætlun. Það eru tekjur hafnanna sem hífa upp tekjurnar og eru þær 112 m.kr. hærri en ráð var fyrir gert. Næsta víst er að þetta eru tekjur af skemmtiferðaskipum þótt það komi ekki fram í yfirlitinu.
Útsvarstekjur eru 51 m.kr. hærri en áætlun ársins og aðrar tekjur 34 m.kr. Samtals eru tekjurnar 239 m.kr. umfram fjárhagsáætlun eða 5,7% á fyrri hluta ársins.
Útgjaldamegin eru þau 47 m.kr. umfram áætlun og fjármagnsgjöldin eru 50 m.kr. hærri en ráð var fyrir gert.
Heildarrekstrarniðurstaðan fyrir sveitarfélagið er að tekjurnar eru 143 m.kr. eins og fyrr kemur fram. Afgangurinn varð 796 m.kr. en áætlunin var upp á 653 m.kr. Niðurstaðan er því að afgangurinn er hærri en áætlunin hljóðaði upp á.
Samandregið þá virðist einkum tvennt skýra betri afkomu. Annars vegar tekjur af skemmtiferðaskipum og hins vegar íbúafjölgun sem skilar fleiri útsvarsgreiðendum umfram áætlun.
-k