Strandabyggð: endurbætur Grunnskólans 306 m.kr.

Grunnskólinn á Hólmavík. Mynd: strandir.is

Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkti á fundi sínum í gær að hækka framkvæmdakostnað við endurbætur Grunnskólans á Hólmavík þessa árs úr 125 m.kr. upp í 190 m.kr. og verður þá heildarframkvæmdakostnaður áranna 2023-2024 alls kr. 306.000.000.

Í upphaflegri áætlun var gert ráð fyrir kostnaði áranna 2024 – 2027 að fjárhæð 165 m.kr. Árið 2023 voru eignfærslur kr. 116 milljónir vegna grunnskólans. Samtals eru þetta 281 milljón kr.

Í fundargerð sveitarstjórnar segir að ljóst sé að kostnaður hafi orðið meiri á styttri tíma en til stóð, „þó heildarkostnaður sé enn um eða við upphaflegan ramma. Ástæða þessa er m.a sú að nokkrum mikilvægum framkvæmdum var flýtt og nýjir verkþættir bættust við. Má þar nefna að ákveðið var að klára uppsetningu loftræstikerfis á þessu ári, sprinkler kerfi var bætt við og eins var ákveðið að fjárfesta í varmadælukerfi.“

Viðaukinn var samþykktur og verður hækkunin greidd með eigin fé og lántöku.

Nýr sveitarstjórnarmaður

Á fundinum var einnig greint frá því að Óskar Hafsteinn Halldórsson taki sæti Jóns Sigmundssonar sem aðalmaður í sveitarstjórn, en Jón hefur beðist lausnar frá störfum fyrir sveitarfélagið og hefur sveitarstjórn staðfest það. Jón er fluttur í Dalabyggð.

Jón Sigmundsson.

DEILA