Vegagerðin fær nýjan holuviðgerðarbíl

Á bakhlið bílsins er skjár sem getur sent skilaboð til vegfarenda.

Írska fyrirtækið Archway á Írlandi átti lægsta boð í útboði um holuviðgerðarbíl. „Fyrirtækið hefur mikla reynslu af holuviðgerðum. Það hefur framleitt svona tæki í um fimmtán ár og á sama tíma hefur það sjálft verið í verktöku í holuviðgerðum og því haft gott tækifæri til að fullkomna tæknina svo hún svari þörfum notandans,“ segir Jón Helgi Helgason, verkefnastjóri hjá Vegagerðinni.

Tækið ber heitið Roadmaster og er byggt ofan á Volvo vörubíl.

En hvernig virkar bíllinn? „Bílstjórinn stýrir holuviðgerðartækinu innan úr bílnum. Hann byrjar á því að blása óhreinindi upp úr holunni sem hefur myndast í veginum. Síðan er bikþeytu sprautað á yfirborð holunnar og svæðið í kring svo úr verður hálfgerð límfilma. Bíllinn blandar saman bikþeytu og malarefni og fyllir holuna. Síðan er aftur límt yfir með bikþeytu og þurru steinefni dreift yfir,“ lýsir Jón Helgi og að lokum er efninu þjappað í holuna. Með bílnum er einnig hægt að gera við sprungunet í klæðingum, gera við signar vegaxlir og aðrar skemmdir.

Bílstjórinn stýrir öllu viðgerðarferlinu með stýripinna. Búnaðurinn er nokkuð fullkominn og að stóru leyti sjálfvirkur. Í lok dags hreinsar bíllinn sig til dæmis sjálfkrafa og losar sig þá við umframefni svo ekki myndist stíflur.

Jón Helgi segir í raun ekki erfitt að læra á stjórntæki bílsins en hins vegar sé vandasamt að ná góðum tökum á holuviðgerðinni þannig að hún sé sem sléttust. Því taki tíma að ná upp góðri lagni.

„Við fengum til okkar kennara frá írska fyrirtækinu sem kenndi fjórum starfsmönnum okkar á tækið í heila viku auk þess sem tveir verkstæðismenn fengu kennslu í viðhaldi á því. Nú fá þeir tíma til að vinna á tækinu og síðar í sumar fáum við kennarann aftur til að fara yfir það sem við erum búnir að gera og þá getum við fínpússað færnina.“

DEILA