Vestri og Knattspyrnufélag Vesturbæjar mættust á Torfnesvelli á Ísafirði á laugardag. Vestri komst yfir á 24. mínútu með marki Péturs Bjarnasonar og leikurinn var að mestu algjör einstefna af hálfu heimamanna og Vesturbæingarnir voru sjaldan líklegir til að skora. En allt kom fyrir ekki og í upphafi síðari hálfleiks jafnaði Enok Ingþórsson leikinn (mín. 48) og fimm mínútum síðar tók KV leikinn með marki Júlí Karlssonar. Markvörður KV var í feiknastuði og kom oftar en einu sinni í veg fyrir að Vestramenn kæmust inn í leikinn á ný. Á 79. mínútu var Hjalta Hermanni Gíslasyni, leikmanni Vestra, vikið af velli með rautt spjald.
Eftir leikinn er Vestri í sjöunda sæti deildarinnar með 19 stig. Næsti leikur liðsins er útileikur við Völsung á fimmtudag.