Act alone: um tvö þúsund áhorfendur á 23 viðburðum

Elfar Logi Hannesson, forsvarsmaður Act alone hátíðarinnar, sem haldin var í 20. sinn um helgina á Suðureyri sagði í samtali við Bæjarins besta að hátíðin hefði gengið einstaklega vel, það hefði verið góð stemming frá byrjun hátíðarinnar á miðvikudaginn. Þá var smekkfullt í Staðarkirkju á tónleikum Mugison og staðið utandyra.

Þá var metmæting í fiskiveisluna á föstudaginn. Ekki var aðeins 20 ára afmæli hátíðarinnar heldur var líka Tjöruhúsið, sem sá um veitingarnar, 20 ára og Fiskvinnslan Íslandssaga, sem lagði til hráefnið, á 25 ára starfsafmæli.

Aðeins 40 lifandi fengu að mæta

Elfar Logi segir að alls hafi verið 23 viðburðir á hátíðinni og um tvö þúsund manns hafi komið á þá. Yngri kynslóðin sótti vel trúðanámskeið og loftbelgjanámskeið. Þá var gríðarleg aðsókn á miðilsfundinn. „Aðeins var hægt hleypa 40 lifandi á fundinn en löng biðröð var eftir miðum“ segir Elfar Logi og var brugðið á það ráð fá Celebs til að slá upp heimatónleikum fyrir þá sem ekki komust á miðilsfundinn. „Ég lagði ekki í að mæta því líklega hefðu verið fullmörg skilaboð að handan til mín.“ Vegna mikils áhuga hélt miðillinn Anna Birta sérstakan miðilsfund á laugardaginn í Edinborgarhúsinu á Ísafirði.

Elfar Logi nefndi einnig velheppnaða lokatónleika á laugardagskvöldið. Þá hélt Gugusar, tvitug stúlka ættuð frá Þingeyri fyrir fullu húsi og hreif hún gesti í dans sem leik sínum.

Salóme Katrín frá Ísafirði var með tónleika, Gunnar Smári Jóhannesson frá Tálknafirði sýndi einleikinn neð sjálfum mér og Vestfirski fornminjadagurinn var haldinn um laugardagsmorguninn við mikla aðsókn í tilgátuhúsinu sem reist hefur verið innst í Súgandafirði. Eiríkur Örn Norðdahl og Ólína Þorvarðardóttir komu einnig fram svo nokkur atriði séu nefnd og segir Elfar Logi að töluverð vestfirsk slagsíða hafi verið á hátíðinni.

„Við viljum þakka íbúum Vestfjarða fyrir að hafa stutt við bakið á hátíðinni í 20 ár og hafa sótt hana vel. Þá er fámennur en öflugur hópur sjálfboðaliða sem gerir þetta mögulegt að halda svona viðamikla hátíð.“ Elfar Logi sagði að undirbúnngur fyrir næstu hátíð væri þegar hafinn og komin væru nokkur boð um atriði á þá hátíð.

Frá loftbelgjanámskeiðinu.

Myndir: Marzibil Snæfríðar Sæmundardóttir.

DEILA