Kaldalón: festi bílinn og gekk í 6 tíma

Mórilla. Varnargarðurinn í sundur. Myndir: Ólafur J. Engilbertsson.

Ingi Guðnason frá Bæjum var á mánudaginn á leiðinni akandi út á Snæfjallaströnd og þegar hann var kominn að ánni Mórillu í Kaldalóni var áin farin að grafa úr veginum við litlu brúna. Hann fór út bílnum til þess að athuga aðstæður en þá grófst undan bíllnum svo hann festist að aftan og varð ekki haggað. Þetta var um miðnættið að segir Ingi að ekki hafi verið mögulegt að ganga áfram út að Bæjum og var ekki annað að gera en að fara fótgangandi til baka. Þegar hann var kominn að litlu brúnni yfir Kvíslá í Kaldalóni var áin farin að grafa úr veginum við brúna. Þegar hann var kominn að Selá í Skjaldfannardal var hún orðin mjög vatnsmikil og segir Ingi að ljóst hafi verið að tún væru á floti og gekk hann holtin að Laugarholti og var kominn þangað um sex leytið um sexleytið um morguninn.

Illskuveður var og hvasst, en það varð Inga til bjargar að vera með kuldagalla í bílnum.

Hins vegar er ekkert símasamband þarna og því ekki unnt að láta vita af sér eða kalla eftir aðstoð.

Ingi segir að Vegagerðin hafi komið daginn eftir og bjargað bílnum og framkvæmt bráðabirgðaviðgerð og komst Ingi að Bæjum um kvöldið. Ingi Guðnason bar sig vel þegar Bæjarins besta ræddi við hann sem viðurkenndi að vera hálfslæptur eftir gönguna.

Samkvæmt heimildum Bæjarins besta er þetta er í þriðja sinn á innan við ári sem Mórilla flæðir yfir bakka sína. Farvegur Mórillu í Kaldalóni er orðinn fullur af möl svo áin verður að leita annað þegar hún vex. Er talið aðkallandi að ráðast í endurbætur á varnargarðinum og sérstaklega að hreinsa möl úr árfarveginum.

Gunnar Númi Hjartarson yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Hólmavík sagði í samtali við Bæjarins besta í fyrradag að ætlunin væri að gera frekari lagfæringar í haust þegar minna vatn væri í ánni.

Vegagerð við Kvíslárbrú þar sem Ingi festi bíl sinn.

Uppfært kl 23:13 11.8. og lagfærður texti við myndir.

DEILA