Óðinshani

Óðinshani. Ljósmynd Daníel Bergmann

Óðinshani verpur umhverfis norðurhvel jarðar, þar á meðal í N-Evrópu. Óðinshani er alger farfugl og voru vetrarstöðvar óþekktar til skamms tíma en merkingar með dægurritum hafa sýnt að fuglar hér og í Skotlandi dveljast við strendur Perú og Ekvador á vetrum.

Óðinshani er allalgengur varpfugl í auðugu votlendi víða um land og hefur stofninn verið gróflega metinn 50.000 pör (Thorup 2006). Nýlegt mat er miklu lægra eða um 10.000 pör en jafnframt nokkrum annmörkum háð (Kristinn Haukur Skarphéðinsson o.fl. 2017). Það er samdóma álit manna að óðinshana hafi fækkað verulega hér síðan um 1960 en litlar tölulegar upplýsingar eru fyrir hendi.

Dreifing og þéttleiki eftir vistlendum:

Útbreiðslukortið endurspeglar líklega hlutfallslega dreifingu óðinshana þar sem votlendi á hásléttum Austurlands: Jökuldalsheiði, Fljótsdalsheiði og Vesturöræfi skora hátt, sem og Arnarvatnsheiði fyrir vestan. Þéttleiki óðinshana mælist illa því þeir eru víða hnappdreifðir og auk þess oft erfitt að túlka varpatferli þeirra. Úttektin gaf aðeins 10.400 pör, nokkuð jafnskipt neðan og ofan 300 m hæðarlínu og gætu um 28% þeirra orpið innan mikilvægra fuglasvæða.

Af vefsíðunni ni.is

 

DEILA