Klofningur ehf: hagnaðist um 2,5 milljarða króna á Kerecis

Guðni A. Einarsson, framkvæmdastjóri Klofnings.

KLofningur ehf á Suðureyri hagnaðist á síðasta ári um 2.486 milljónir króna af sölu hlutabréfa í Kerecis. Bókfært eigið fé félagsins nam 2,6 milljörðum króna í lok ársins 2023.

Á aðalfundi félagsins á þessu ári var samþykkt að greiða 1.370 m.kr. í arð til hluthafa.

Níu hluthafar eru að félaginu og skiptist arðgreiðslan til þeirra eftir eignarhluta hvers og eins:

Hraðfrystihúsið Gunnvör hf er stærsti eigandinn með 36,6% hlutafjár og fær 494 m.kr. í arðgreiðslu. Jakob Valgeir ehf á 26,92% og fær 369 m.kr. Sigurmar ehf , sem er í eigu Guðna A. Einarssonar og Sigrúnar Sigurgeirsdóttur Suðureyri, á 14,54% og fær 200 m.kr. í arðgreiðslu. Næst er EGO Export ehf sem á 12,46% og fær 170 m.kr.

Fimm hluthafar eiga minna en 5% hver. Oddi hf á Patreksfirði á 3,53% og fær 48 m.kr. í arðgreiðslu, Norðureyri ehf á Suðureyri á 2,75% og fær 38 m.kr., Silfurtorg ehf á Ísafirði, sem er í eigu Alberts Högnasonar og Gunnhildar Gestsdóttur, á 1,9% og fær 26 m.kr. í arð, Þórsberg ehf á Tálknafirði, sem er að meirihluta til í eigu Guðjóns Indriðasonar, á 1,78% og fær 24 m.kr. Loks er Páll S. Önundarson með 0,06% hlut og fær 1 m.kr.

Klofningur ehf. er framleiðslufyrirtæki sem sérhæfir sig í þurrkun fisks auk úrvinnslu allra aukaafurða úr fiski. Félagið er með 4 starfsstöðvar, eina á Ísafirði og Tálknafirði og tvær á Suðureyri.

Í skýrslu stjórnar segir að grunnrekstur félagsins hafi verið erfiður á árinu 2023 og nam tap af grunnrekstinum fyrir afskriftir og vexti 18 millj. kr. Stjórn félagsins gerir ráð fyrir að grunnrekstur félagsins verði erfiður á árinu 2024, einkum vegna slæmra markaðsaðstæðna í Nígeríu og kostnaðarhækkana á Íslandi. Stjórnendur félagsins hafa hafið vinnu við að beina framleiðslu félagsins á aðra markaði til að minnka markaðsáhættu félagsins.

Í stjórn félagsins eru Einar Valur Kristjánsson, formaður, Óðinn Gestsson og Jakob Valgeir Flosason. Framkvæmdastjóri er Guðni A. Einarsson.

DEILA