Finna þarf nöfn á stíga í Ísafjarðarbæ

Stígum og útivistarvegum í Ísafjarðarbæ fjölgar frá ári til árs en margir þeirra eru nafnlausir þrátt fyrir að vera mikið notaðir.

Til stendur að bæta úr þessu með því að safna saman upplýsingum um nöfn á stígum sem þegar eru til, auk þess að kalla eftir tillögum að nöfnum á stíga og vegi sem ekkert nafn hafa.

Helstu kostir þess að nefna stígana eru að auðvelda rötun, styrkja tengingu við nærumhverfið og undirstrika áherslu sveitarfélagsins á útivist. Þá nýtast nöfnin einnig við birtingu stafrænna gagna á til dæmis kortasjá og í opnum kortakerfum.

Íbúar Ísafjarðarbæjar eru hvattir til að leggja verkefninu lið og á vefsíðu bæjarins eru upplýsingar um þá stíga sem vantar nöfn.

DEILA