Hnúðlax í ám á Íslandi

Hafrannsóknastofnun hefur tekið þátt í rannsóknum í sumar til að auka þekkingu á hnúðlaxi.

Skráning veiða á hnúðlaxi er mikilvæg til að fylgjast með fjölda veiddra fiska og útbreiðslu tegundarinnar bæði í tíma og rúmi. Rannsóknirnar eru liður í samstarfi við vísindamenn frá Queen Mary háskólanum í London, Noregi og Finnlandi til að auka þekkingu á lífsferli og áhrifum hnúðlaxa. Veitt hefur verið í nokkrum ám hér á landi bæði í á Suðvesturlandi og á Norðausturlandi auk áa í Noregi, Finnlandi, Grænlandi og Svalbarða. 

Veiðar hófust í Botnsá í Hvalfirði í vor og þá veiddust nokkur seiði en vitað var af hrygningu hnúðlaxa þar síðasta haust.

Líkt og fyrri rannsóknum sem gerðar voru 2022 hafa veiðst gönguseiði hnúðlaxa sem bendir til þess að kominn sé vísir að stofni sem getur viðhaldið sér í ám hér á landi. Frekari rannsóknir eru fyrir hugaðar á ástandi og afdrifum seiðanna sem nú eru að ganga til sjávar. Á síðustu árum hefur hnúðlax í auknum mæli gengið í ár hér á landi einkum á oddatölu árum.

Hnúðlaxinn er af tegund Kyrrahafslaxa sem Rússar fluttu til sleppinga í ár við Hvítahaf og á Kolaskaga. Þaðan hefur hnúðlax verið að dreifa sér á síðustu árum m.a. í ár hér á landi.

Margir hafa áhyggjur af þeim áhrifum sem tilkoma hnúðlaxins hefur og mikilvægt er að auka þekkingu á áhrifum þessarar framandi tegundar.

DEILA