Dagurinn í dag á Act alone

Mugison í Staðarkirkju. Myndir: Act alone.

Leiklistar- og listahátíðin Act alone hófst í gær með afmælistónleikum Act alone í tilefni af tveggja áratuga tilveru hátíðarinnar. Það var sómi Vestfjarða, Mugsion, sem heillaði hátíðargesti í smekkfullri Staðarkirkju í Súgandafirði. Svo margmennt var að opnaðir voru allir gluggar guðshússins svo margir gestir hlustuðu við skjáinn að utanverðu. Í gær hófst einnig trúðanámskeið fyrir æskuna sem belgísk/franski trúðurinn Fransoise Simon stýrir.

Dagskrá Act alone heldur áfram í dag. Eitthvað fyrir alla og ókeypis á allt einnig er rétt að minna á að hægt er að fá ókeypis far með langferðabifreið Act alone sem fer á millum Ísafjarðar og Suðureyrar alla Act helgina. Dagskrá langferðabifreiðar og hátíðarinnar má sjá á www.actalone.net

Staðarkirkja var fullsetin og hlýtt var á tónleikana utandyra.

Fyrsti viðburður dagsins í dag á Act alone verður opnun á myndlistarsýningu Drífu Garðarsdóttur frá Bíldudal kl.18.01. Fimmtán mínútum síðar verður hin rómaða fiskiveisla og upphafsstef Act alone. Sem verður í þreföldum hátíðarbúning því í ár fagnar ekki bara Act alone 20 ára afmæli heldur og Tjöruhúsið sem er jafnaldri hatíðarinnar. Svo á Íslandssaga á Suðureyri 25 ára afmæli. Í tilefni alls þessa munu Íslandssaga og Tjöruhúsið leiða saman potta og pönnur svo úr verður einstök fiskiveisla. Skúli mennski stígur á stokk í félagsheimilinu kl.19.01 og klukkutíma síðar verður boðið upp á hinn vinsæla einleik Félagsskapur með sjálfum mér. Vestfirsku skáldin Ólína Þorvarðardóttir og Eiríkur Norðdahl verða með sagnastundir þar á eftir og loks líkur þessu einstaka fimmtudagskveldi með gjörningsverkinu The Route.

Þá vita margir hvar best er að vera í dag.

Ólína Þorvarðardóttir.

Dagskráin í dag.

DEILA