Bolungavík: í góðum höndum

Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir er formaður bæjarráðs Bolungavíkurkaupstaðar.

Fundur bæjarráðs Bolungavíkurkaupstaðar í síðustu viku var merkilegur fyrir þær sakir að allir fundarmenn voru konur. Starfandi bæjarstjóri í sumarleyfi Jóns Páls Hreinssonar er Katrín Pálsdóttir. Auk hennar sátu fundinn bæjarráðsmennirnir Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir, formaður bæjarráðs, Ástrós Þóra Valsdóttir og Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir.

Katrín Pálsdóttir var innt eftir því hvort þetta væri ekki einsdæmi. Hún vildi ekki alveg fullyrða það en taldi svo vera. Katrin sagði að fundurinn hefði gengið vel. „Bærinn er í góðum höndum.“

Þar var hún ekki síður að vísa til þess að aðalumræðuefnið á fundinum hefði verið rætt um undirbúning að fjárhagsáætlunargerð fyrir næsta ár og farið yfir forsendur og spár Hagstofunnar um þróun efnahagsmála. „Bærinn er vel staddur fjárhagslega og gott útlit fyrir næsta ár.“

DEILA