Vestri: jafntefli og góður leikur heimamanna

Vestfirðingar styðja vel við lið sitt og stúkan var þéttsetin í gær.

Karlalið Vestra tók í gær á móti ÍA frá Akranesi í Bestu deildinni á Kerecis vellinum á Torfnesi á Ísafirði.

Góð mæting var á leikinn og fengu heimamenn sterkan stuðning úr stúkunni.

Fyrri hálfleikur var frekar lokaður og fátt um færi. Liðin spiluðu varfærnislega og jafnræði var með liðunum. Annað var upp á teningnum, einkum frá heimamönnum. Vestri sýndi mjög góðan leik og stjórnuðu leiknum mikið til. Hvort lið gerði eitt mark sem var dæmt af, sérstaklega var umdeilanlegt hvort rangstaða hafi verið þegar Vestri skoraði.

Þá átti Vestri skot í stöng þegar Vladimir Tufegdzic lék á markvörðinn og skaut svo í stöngina og a.m.k. þrjú dauðafæri til viðbótar. Tvisvar varði varnarmaður ÍA boltann áður en hann fór yfir marklínuna og tvisvar varði markmaður ÍA glæsilega skot Vestramanna.

Tvímælalaust hefði verið sanngjarnt að Vestri hefði unnið leikinn, en til þess þarf að skora. Engu að síður sýndi Vestri góðan leik og gerði Skagamönnum, sem eru í 6. sæti deildarinnar með 25 stig erfitt fyrir.

Davíð Smári Lamunde, þjálfari Vestra var ánægður með liðið og sagði það hafa heilt yfir verið stórkostlegt.

Eftir leikinn er Vestri í 11. sæti deildarinnar með 13 stig, en Fylkir er í neðsta sæti með 12 stig. Fyrir ofan þau eru HK með 14 stig og KR með 15 stig og eigast þau við í kvöld.

Arctic Fish er einn helsti styrktaraðili Vestra og bauð áhorfendum upp á grillaðan eldislax. Hér er Stein Ove Tveiten, forstjóri Arctic Fish að sjálfsögðu í Vestratreyju.

Vestri í einni af mörgum sóknum sínum í síðari hálfleik.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

DEILA