Sauðfjársetrið vantar safnstjóra

Auglýst er eftir safnstjóra á Sauðfjársetur á Ströndum sem er staðsett í félagsheimilinu Sævangi, 12 km sunnan við Hólmavík.

Sauðfjársetrið er eitt minnsta viðurkennda safn landsins, en vel þekkt fyrir öflugt starf, góð tengsl við samfélagið, fjölbreytt viðburðahald og margvísleg menningarverkefni.

Safnið var í apríl á þessu ári  tilnefnt til Íslensku safnaverðlaunanna 2024 fyrir samfélagslega nálgun í safnastarfi. Einnig voru tilnefnd Listasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur, Gerðarsafn og Þjóðminjasafn Íslands.

Safnið er sjálfseignarstofnun með þriggja manna stjórn og starfar safnstjóri í umboði stjórnar.

Í Sævangi er fastasýning safnsins, sérsýningar, kaffistofa með margvíslegum veitingum og minjagripabúð. Sauðfjársetrið er í senn safn, ferðaþjónustuaðili og mikilvæg menningarmiðstöð á Ströndum.

Óskað er eftir glaðværum dugnaðarforki með leiðtogahæfileika og mikla þjónustulund. Mikilvægt er að viðkomandi sé lausnamiðaður og viljugur til að ganga í öll verk, eftir því sem þörf krefur.

Safnstjóri Sauðfjársetursins er allt í öllu í starfi safnsins, eini starfsmaðurinn yfir vetrartímann, en viðbótar starfsfólk er ráðið í gestamóttöku yfir sumarið og afmörkuð verkefni ef fjármögnun þeirra leyfir. Safnstjórinn þarf að eiga auðvelt með að fá annað fólk í lið með sér, til að halda uppi stemmningunni.

DEILA