Act alone 20 ára

Act alone leiklistar- og listahátíðin verður haldin 20 árið í röð dagana 7. – 10. ágúst á Suðureyri. Já, hin einstaka hátíð Act alone er orðin tveggja áratuga gömul og hefur allt frá upphafi verið haldin á Vestfjörðum. Það verður því alveg einstök dagskrá í boði á afmælisárinu hvar boðið verður upp á yfir 20 einstaka viðburði. Að vanda verður ókeypis á alla viðburði Actsins og fjölbreytileikinn verður í aðalhlutverki. Leiksýningar, dans, tónleikar, myndlist, ritlist og alls konar list. Einstaklega vegleg dagskrá verður fyrir æskuna og verður m.a. boðið upp á trúðanámskeið og loftbelgjasmiðju. Act alone verður einnig alþjóðleg því boðið verður upp á leiksýningu á pólsku og franska trúðasýningu. Meðal listamanna ársins má nefna Mugison, Gugusar, Jón Víðis, Þórey Birgisdóttur, Rúnar Helga Vignisson, Salóme Katrínu og Sigrúnu Waage. Það er næsta víst að allir munu finna eitthvað við sitt hæfi á Act alone á Suðureyri hið einstaka afmælisár 2024. Það verður ekki bara ókeypis á hátíðina heldur verður einnig hægt að fara ókeypis á Actið með langferðabifreið Actsins sem gengur daglega millum Ísafjarðar og einleikjaþorpsins alla hátíðar dagana. Dagskrá Act alone í heild sinni má finna á heimasíðu hátíðarinnar www.actalone.net

Leikið hér og að handan

Í tilefni af 20 ára afmæli Act alone hefur hátíðin verið lengd um einn dag og stendur því hið einstaka stuð yfir í fjóra daga. Í tilefni tímamótana munu fjölmargir vestfirskir listamenn koma fram. Sómi Vestfjarða Mugison gefur tónin með sérstökum afmælistónleikum Actsins sem verða haldnir í Staðarkirkju. Af öðrum vestfirskum listamönnum má nefna Drífu Kristjónu Garðarsdóttur, Skúla mennska, Salóme Katrínu, Ólínu Þorvarðardóttur og Rúnar Helga Vignisson. Einnig mun vestfirski leikarinn Gunnar Jóhannesson flytja einleik sinn Félagsskapur með sjálfum mér. Af öðrum einleikjum má nefna Ef ég gleymi er fjallar um hinn miskunarlausa hvergi sjúkdóm, alsæmer. Frá Póllandi fáum við einleikinn Dramaternity eftir og með Magdalena Bochan-Jachimek og belgísk/franska leikkonan Fransoise Simon flytur trúðaeinleik sinn Headinig North. Einnig mun Simon vera með trúðanámskeið fyrir krakka.

Actið verður þó eigi bara í þessum heimi heldur verður einnig kikkað yfir í handanheima. Hin vestfirska Anna Birta Lionaraki stýrir handan stundinni en hún hefur haldið fjölda marga opna handan fundi í borginni og nú loksins verður skyggnast yfir um hér vestra. Við munum einnig skyggnast í komandi einleik því haldin verður opin æfing á erlendum einleik Ífígenía í Ásbrú (Iphigenia in Splott). Þetta er verðlaunaverk sem hefur farið sigurför um heiminn. Leikritið fjallar um Ífí, stelpuna sem þú tekur sveig framhjá þegar þú mætir henni hauslausri fyrir hádegi. En það sem þú veist ekki er að þú stendur í ævilangri þakkarskuld við hana. Og nú er komið að skuldadögum. Leikari er Þórey Birgisdóttir.

Eitthvað fyrir alla

Að vanda verður vegleg barnadagskrá á Act alone. Auk trúðanámskeiðs og loftbelgjasmiðju verður Jón Víðis með töfrasýningu og Mark Blashford sýnir brúðuleikinn Búkolla. Tónleikar verða með vestfirska tónlistarfólkinu Salóme Katrínu og Skúla er kallaður er hinn mennski. Vestfirsku skáldin Ólína Þorvarðardóttir, Eiríkur Örn Norðdahl og Rúnar Helgi Vignisson lesa og segja frá verkum sínum. Drífa Kristjóna Garðardóttir myndlistarkona frá Bíldudal verður með sýningu á verkum sínum sem sannlega eru einstök. Síðast en ekki síst má geta þess að hinn árlegi Vestfirski fornminjadagur verður á sínum stað á Act alone. Verður hann haldin á laugardagsmorgninum 10. ágúst í hinum hinum nýbyggða Landnámsskála Hallvarðs Súganda.

Einsog áður var getið þá er aðgangur að öllum viðburðum á Act alone ókeypis. Þannig hefur það verið allt frá upphafi en alls hefur verið boðið upp á 337 ókeypis viðburði á Actinu og í ár bætast 23 ókeypis viðburðir í þann góða viðburðapott. Það ætti engin að verða einmanna né að leiðast á Act alone. Svo nú er fátt annað í stöðunni en að skunda á Suðureyri á Act alone 7. – 10. ágúst því það kostar ekkert.

DEILA