Júlí var tiltölulega hlýr á norðanverðu landinu en það var svalara sunnanlands. Að tiltölu var hlýjast á Norðausturlandi en kaldast á Suðvesturlandi. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 1,7 stig á Staðarhól í Aðaldal. Neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest -0,6 stig á Þingvöllum.
Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í júlí miðað við síðustu tíu ár (2014 til 2023).
Meðalhiti mánaðarins var hæstur 12,7 stig á Akureyri, en lægstur 5,7 stig á Gagnheiði. Á láglendi var meðalhitinn lægstur 7,8 stig í Seley.
Hæsti hiti mánaðarins mældist 27,5 stig á Egilsstaðaflugvelli þ. 14. Mest frost í mánuðinum mældist -2,0 stig á Gagnheiði þ. 6. Mest frost í byggð mældist -1,6 stig í Svartárkoti þ. 8.
Það var óvenju blautt á vestanverðu landinu í júlí. Á nokkrum úrkomustöðvum á Vesturlandi er júlíúrkoman sú mesta sem mælst hefur, t.d. á Ásgarði, Lambavatni og Hjarðarfelli.
Mikið vatnsveður gerði á Vesturlandi dagana 13. og 14. júlí, þá sérstaklega á Snæfellsnesi og Barðaströnd. Því fylgdu miklir vatnavextir og einhverjar skriður féllu á þessum svæðum. Úrkoman mældist langmest í Grundarfirði þessa daga. Sólarhringsúrkoman að morgni þess 14. mældist 227 mm sem er mesta úrkoma mæld hefur verið á einum sólarhring í Grundarfirði og jafnframt mesta sólarhringsúrkoma sem mæld hefur verið í júlímánuði á landsvísu.
Einnig var mjög úrkomusamt á Tröllaskaga og í Skagafirði dagana 21. og 22. júlí. Mest mældist úrkoman á Siglufirði og Ólafsfirði. Nokkrar aurskriður féllu í kjölfarið á þessu svæði.
Mánuðurinn var mjög úrkomusamur í Reykjavík. Úrkoman mældist 89,7 mm sem er 80% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Úrkoman í Reykjavík hefur ekki mælst meiri í júlí síðan 1984 (júlí 2014 var þó álíka blautur og nú). Á Akureyri mældist úrkoman 24,4 mm sem er um 70% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 56,7 mm og 61,5 mm á Höfn í Hornafirði.
Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 13 sem er 3 fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 8 daga sem eru 1 fleiri en í meðalári.
Það var þungbúið í Reykjavík í júlí. Sólskinsstundir mældust 110,9 sem er 72,3 stundum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 175,0 sem er 22,5 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.