Önundarfjörður: áform um bláskelsrækt

Fyrirtækið Northlight Seafood ehf.  hefur sótt um leyfi til tilraunaræktar á bláskel í Önundarfirði. Í umsókn til Matvælastofnunar segir að fyrirhuguð sé ræktun með flekum og skipulegri vöktun. Fyrsta stig verði að kanna sjávarstrauma , þörungamagn sjávar, finna ræktunarsvæðin og meta hvað hvert svæði beri marga þörungafleka.

Ætlunin er að kanna getu svæðanna til framleiðslu á bláskel til manneldis og sem burðarefni í fóður fyrir fiskeldi.

Gerð verði prufuræktun með uppsetningu ákveðins magns af flekum og vaxtarhraða lirfa/skelfisks á umræddum svæðum.

Engin fóðurgjöf er fyrirhuguð.

Tilraunaleyfi gildir að hámarki til þriggja ára í senn en heimilt er að endurnýja það samkvæmt umsókn leyfishafa um eitt ár í senn þannig að það gildi að hámarki í sex ár.

Í erindi Matvælastofnunar er óskað eftir umsögn Ísafjarðarbæjar varðandi það hvort náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu ræktunarsvæði eða fyrirhugaðar tegundir, stofnar eða starfsaðferðir gefi tilefni til hættu á neikvæðum vistfræði- eða erfðafræðiáhrifum sem leitt getur af leyfisskyldri starfsemi.

Skipulags- og mannvirkjanefnd bókaði að nefndin gerði ekki athugasemd vegna umræddrar umsóknar.

DEILA