Flókalundur: deiliskipulag orlofsbyggðar samþykkt

Skipulags- og framkvæmdaráð Vesturbyggðar hefur samþykkt deiliskipulag fyrir orlofsbyggðina í Flókalundi og vísað málinu áfram til heimastjórnar fyrrum Barðastrandarhrepps og Rauðasandshrepps til afgreiðslu.

Vinnan hófst í apríl 2021 með samþykkt bæjarstjórnar Vesturbyggðar.

Innan skipulagssvæðissins eru alls fimmtán hús, þrettán þeirra eru orlofshús, eitt þjónustuhús fyrir sundlaug og loks þjónustuhús fyrir starfsemi orlofsbyggðarinnar.

Heildarstærð skipulagssvæðisins er 4.4 ha. Skipulagssvæðið er á þegar röskuðu landi. Skipulagssvæðið er í eigu ríkisins. Skipulagssvæðið er hluti af landsvæði sem skilgreint er sem friðland.

Markmið stjórnar orlofsbyggðarinnar með deiliskipulagsgerðinni er að deiliskipuleggja núverandi byggð og gera tillögu um fjölgun um tvö orlofshús á svæðinu, ásamt því að gera ráð fyrir möguleika á stækkun núverandi þjónustu- og sundlaugarhúsa ásamt heimild fyrir byggingu fleirri þjónustuhúsa.

Tillagan var auglýst með athugasemdafresti til 22. apríl 2024. Engar athugasemdir bárust frá almenningi á auglýsingatíma en umsagnir bárust frá Minjastofnun, Umhverfisstofnun, Vegagerðinni, Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða og Slökkviliði Vesturbyggðar. 

Í umsögnum Vegagerðarinnar, Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða og slökkviliðs Vesturbyggðar eru engar athugasemdir gerðar.

Umhverfisstofnun sendi ýtarlega umsögn og lagði áherslu á að mannvirkjagerð og jarðrask og hvers konar breytingar á landi eru háðar leyfi Umhverfisstofnunar og að samráð við stofnunina væri nauðsynlegt um deiliskipulagið áður en það færi í auglýsingu. Bent er á að birkið á svæðinu getur fallið undir b. lið 1. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Umhverfisstofnun bendir á að Skógræktin hefur það hlutverk að skilgreina og kortleggja náttúrulega birkiskóga sem falla undir 61. gr. náttúruverndarlaga.

Minjastofnun fer ekki fram á fornleifaskráningu á deiliskipulagsreitnum en leggur ríka áherslu á að ef fornminjar finnist þá sé óheimilt að halda framkvæmdum áfram nema með skriflegu leyfi Minjastofnunar
Íslands.

DEILA