Hvalatalning á Árna Friðrikssyni HF200, sem hófst í byrjun júlí, gekk samkvæmt áætlunum.
Þessi hluti hvalatalningana, NASS24, sem skipulagðar eru af NAMMCO (North Atlantic Marine Mammal Commission), er samhliða 15. makrílleiðangri stofnunarinnar.
Talningarnar á Árna fara fram allt í kringum landið og hófust í Grænlandssundi um 100km vestur af Látrabjargi þar sem komið var á fyrstu leitarlínuna. Síðan fikraði leiðangurinn sig austur með Norðurlandi og suður með Austurlandi.
Veður geta verið rysjótt á Grænlandssundi um hásumar og eins má eiga von á hafís á þeim slóðum eins og raunin var í upphafi leiðangurs. Þoka hafði áhrif á skyggni og hafís lá yfir hluta af áætluðu leitarsvæði. Á fyrsta legg norður, um 250km NV af Straumnesi var hafís og sáust þar hnúfubakar, búrhvalir og langreyðar.