Ísafjörður: Sundabakki malar gull

20.júlí sl. voru tvö stór skemmtiferðaskip við Sundabakka og eitt lá við akkeri útar. Við Mávagarð lá laxaflutningskip til marks um gróskuna á Vestfjörðum sem tengjast þessum atvinnugreinum. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Júlímánuður var sá stærsti í komum skemmtiferðaskipa á Ísafirði svo vitað sé. Skráðar voru 66 komur og hámarksfjöldi ferðamanna með þeim var um 80 þúsund manns. Ætla má að tekjur hafnarsjóðs af skemmtiferðaskipunum í júlímánuði einum hafi losað 200 m.kr.

Til samanburðar þá birti Ísafjarðarhöfn upplýsingar um fjölda skemmtiferðaskipa fyrr í sumar og áætlaðar tekjur hafnarsjóðs af þeim. Eins og sjá má komu 55 skip til júníloka með um 67 þúsund farþega og áætlaðar tekjur hafnarinnar voru 219 m.kr.

efnahagslegu áhrifin: milljarður króna

Mikil umsvif fylgja skemmtiferðaskipunum önnur en tekjur í hafnarsjóð. Hvað þau eru mikil er reynt að meta í skýrslu Reykjavík Economics sem unnin var fyrir Faxaflóahafnir. Athugaðar eru þrjár kannanir sem gerðar hafa verið um eyðslu farþega. Samkvæmt þeim er meðaleyðslan í tveimur könnunum meiri en 20 þúsund krónur pr. farþega og í einni 4.210 kr.

Ef áætlað er að með skipunum í júlímánuði hafi komið 60 þúsund farþegar sem er um 3/4 hlutar hámarksfjöldans og meðaleyðslan hafi annars vegar verið 20 þúsund krónur og hins vegar 5 þúsund krónur fæst að tekjurnar inn í samfélagið hafi verið 300 m.kr. eða 1,2 milljarðar króna.

Ef við bætum svo við skipakomunum frá því í apríl til júlíloka þá eru efnahagslega innspýtingin annars vegar um 630 m.kr. og hins vegar 2,5 milljarður króna, eftir því við hvora viðmiðunina er miðað. Við þetta bætast svo tekjur Ísafjarðarhafnanna sem eru 400 – 500 m.kr.

Væntanlega munu frekari rannsóknir leiða fram betri upplýsingar um meðaleyðsluna og minnka bilið í matinu, en það er hafið yfir allan skynsamlegan vafa að efnahagslegu áhrifin á Vestfjörðum af komu skemmtiferðaskipa á heilu sumri eru mjög mikil og talin í milljörðum króna.

Vestfirðingar eru enn að byggja upp nauðsynlega innviði, svo sem Sundabakka, sem nota bene er að mala gull fyrir sveitarfélagið. Og þeir eru enn að móta þjónustuna, auka hana og bæta og eiga alla möguleika á að auka tekjur sínar á næstu árum. Má nefna marga eftirsótta útsýnisstaði sem ferðarmennirnir erlendu sækja sér til ánægju. Kláfur upp á Gleiðarhjalla yrði vafalaust mjög vinsæll og drægi marga að Ísafirði svo dæmi sé nefnt. Annað dæmi sem huga má að er menningartengd ferðaþjónusta. Þar er styrkur Ísafjarðar mikill og möguleikar á að sækja fram landi og þjóð til vegsauka og ávinnings.

-k

DEILA