Kobbi Láka til aðstoðar skútu norður af Straumnesi

Í morgun barst Landhelgisgæslunni boð frá skútu með 12 manns um borð sem þá var stödd um 5 kílómetra norður af Straumnesi á Hornströndum. Gír hafði brotnað og skipstjóri óskaði eftir aðstoð.

Björgunarbáturinn Kobbi Láka frá Bolungavík hélt til móts við skútuna og var kominn að henni eftir um klukkustundar siglingu frá Bolungavík rétt upp úr klukkan ellefu í morgun. Taug var komið á milli skipanna og Kobbi Láka tók svo skútuna í tog. Stefnan er sett á höfn á Ísafirði, þar sem áhöfn Kobba Láka áætlaði að vera um klukkan 14:30.

Mynd: Landsbjörg.

DEILA