Viltu hjálpa fólki að tala íslensku? Hraðíslenska á Dokkunni.

Gefum íslensku séns óskar eftir almannkennurum 7. ágúst á Dokkunni klukkan 18:15.

Ertu áhugasöm eða áhugasamur um að hjálpa til við máltileinkun fólks? Viltu hjálpa fólki að æfa sig, verða betra í íslensku? Ef já, þá skaltu endilega melda þig í gegnum islenska@uw.is og skrá þig til leiks. Þetta er mjög skemmtilegt og gefandi.

Sjá líka hér.

Og hérna aðeins lengri texti:

Til móðurmálshafa og þeirra sem kunna málið mjög vel:

Það er trú okkar að langflestir sem búa á Íslandi vilji læra íslensku. En umhverfið er ekki alltaf íslenskuvænt. Oft skortir hvata, oft skortir tækifæri til að læra og æfa málið. Við viljum gera umhverfið íslenskuvænt, við viljum skapa tækifæri, við viljum skapa hvata.

Og vilt þú veita okkur liðsinni? Viltu kannski prófa að taka þátt? Allir geta nefnilega rétt hjálparhönd eða hjálparrödd í þessu tilfelli. Engin þörf er á málfræðikunnáttu. Mikilvægt er að búa að þolinmæði og að leitast við að tala hægt og skýrt, endurtaka, umorða, nota látbragð. Það er að segja finna leið til að útskýra á íslensku. Það er nefnilega hægt af því íslenska er ekki það óvinnandi vígi sem margir halda. Nei, íslenska er auðveldari en margir halda.

Málið lærist allavega ekki, nema að mjög, mjög litlum hluta, í gegnum hjálparmál. Íslenska lærist með að nota og heyra íslensku. Íslenska lærist í samfélaginu og af samfélaginu. Svo ef við viljum hjálpa fólki að læra málið, ef við viljum að íslenska sé almennt töluð þá þurfum við að leggja okkar að mörkum. Og það er fremur einfalt. Við þurfum bara að tala íslensku við fólk.

Hvað þetta er:

Það verður unnið með sömu hugmyndafræði og lýtur að harðstefnumóti eða svokölluðu speed-dateing-i nema hvað markmiðið er að æfa sig í íslensku ekki að ná í framtíðarmaka.

Aðalatriðið er auðvitað að þetta sé gaman. Það er líka mikilvægt að það sé gaman að læra íslensku, gaman að verða betri í íslensku.

Okkur vantar bæði móðurmálshafa og nemendur.

Hægt er að skrá sig (sign up) gegnum islenska@uw.is eða boða komu sína hér á FB. Ef þið komist svo ekki látið þá vinsamlega vita. Það er mikilvægt að reyna að hafa sirka jafnt í liðum, álíka marga móðurmálshafa og þá sem læra/æfa málið.

Með íslenskuvænum kveðjum.

DEILA