Andmæla tillögum um að færa heilbrigðiseftirlit til ríkisins

Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða er í Bolungavík.

Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi andmæla tillögum umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytisins og matvælaráðuneytisins um að leggja niður heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga í núverandi mynd og flytja málaflokkinn frá sveitarfélögum til ríkisins.

Ráðuneytin hafa sett á laggirnar stýrihóp í framhaldi af Skýrslu starfshóps um fyrirkomulag eftirlits með hollustuháttum og mengunarvörnum og matvælum, útg. ágúst 2023 sem hefur það hlutverk „að fylgja eftir tillögum starfshópsins og undirbúa innleiðingu á nýju eftirlitskerfi“.

Í bréfi samtaka heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi, SHÍ, til sveitarfélaganna frá því í júní er vakin athygli á þessum áformum.

SHÍ gerir alvarlegar athugsemdir við skýrslu starfshóps um fyrirkomulag eftirlits með hollustuháttum
og mengunarvörnum og matvælum og telur rökstuðning vanta fyrir niðurstöðu hópsins um að heppilegast sé að flytja heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga til ríkisins.

Helstu röksemdir í skýrslunni, skv. bréfi SHÍ, eru þær að skortur sé á samræmingu heilbrigðiseftirlits á landinu, núverandi fyrirkomulag hafi í för með sér of mikið flækjustig og kostnað fyrir atvinnurekendur, og að ESA hafi í sínum úttektum gert athugasemdir við núverandi fyrirkomulag matvælaeftirlits vegna
orðsporshættu.

SHÍ telur að flækjustig muni ekki minnka, heldur aukast, við flutning eftirlits til ríkisins þar sem leyfisveitingar sem eru í höndum heilbrigðiseftirlita í dag mun skiptast á tvær stofnanir, Umhverfisstofnun og Matvælastofnun. „Flutningur á verkefnum frá sveitarfélögum til ríkisins hefur yfirleitt haft í för með sér aukinn kostnað fyrir rekstraraðila og samfélagið, en ekki þá lækkun í kostnaði sem stefnt er að.“

Einnig bendir SHÍ á að heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga er rekið af sértekjum allt að 70% þannig að sveitarfélögin leggja til um 30% af kostnaði að jafnaði. Tillögur ofangreindrar skýrslu snúast um að taka yfir þau verkefni sem eru rekin af sértekjum en hin verkefnin, s.s. tiltekt á lóðum og lendum, vöktun á loftgæðum, vatngæðum og strandsjó, umsagnir og ráðgjöf, munu liggja áfram hjá sveitarfélögunum.

SHÍ bendir einnig á að athugasemdir ESA snúa ekki nema að takmörkuðu leyti að matvælaeftirliti heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga heldur að stærstum hluta að matvælaeftirliti sem rekið er af ríkinu sjálfu.

Að mati SHÍ er niðurstaða skýrslunnar byggð á veikum grunni, rökstuðning vantar og samráði við hagaðila, þ.m.t. heilbrigðiseftirlitin og sveitarfélögin, verulega ábótavant.

DEILA