Alaskalúpína finnst í öllum landshlutum og hefur náð sér víða á strik í kringum þéttbýli. Lúpínan setur oftar en ekki mikinn svip á landslag og gróður og verður gjarnan ríkjandi tegund í gróðurfari.
Alaskalúpína vex villt í Norður‐Ameríku og er talin hafa verið flutt hingað til lands árið 1895 sem garðaplanta.
Um miðbik síðustu aldar flutti Hákon Bjarnarson fyrrum skógræktarstjóri hingað til lands fræ og rætur af tegundinni frá Alaska og var þá byrjað að nýta hana til landgræðslu. Lengi vel var útbreiðsla tegundarinnar takmörkuð en einkum eftir 1990 jókst útbreiðslan og er alaskalúpína nú útbreidd um land allt. Þessar breytingar má rekja til ýmissa breytinga svo sem minni sauðfjárbeitar eftir 1980 og aukinnar notkunar alaskalúpinu til landgræðslu og skógræktar. Tegundin er nú við allmarga þéttbýlisstaði og á skógræktar- og landgræðslusvæðum en einnig þar sem land er friðað eða sauðfjárbeit lítil. Alaskalúpína hefur víða breiðst inn á hálf- eða vel gróið land og finnst einnig til fjalla og inni á hálendinu.
Tegundin er stórvaxin og ná stönglar sums staðar ríflega 1,2 m hæð. Fræframleiðsla er mikil og geta fræ lifað í jarðvegi í nokkur ár en einnig eru dæmi um að alaskalúpina fjölgi sér með rótarskotum. Talið er að æviskeið plantna geti verið allt að 30 ár.
Alaskalúpína er af ertublómaætt og getur bundið köfnunarefni (N) úr andrúmslofti sem hún nýtir sér til vaxtar en skilar því einnig til jarðvegsins þegar plöntuhlutar hennar brotna niður og eykur þannig frjósemi jarðvegs.
Þessi eiginleiki gerir henni mögulegt að dafna þar sem jarðvegur er rýr og aðrar plöntutegundir eiga erfitt uppdráttar. Vegna þessara eiginleika er alaskalúpínan öflug landgræðslujurt en á sama tíma er hún ráðandi tegund. Kjörlendi tegundarinnar eru melar, áreyrar og rýrt mólendi.
Af vefsíðunni ni.is