Almyrkvi á sólu 2026 – Vesturbyggð skipar starfshóp

Þann 12. ágúst 2026 verður almyrkvi á sólu sjáan­legur á Íslandi í fyrsta skipti frá 1954. Almyrkvinn mun sjást lengst frá Látra­bjargi, í tvær mínútur og 13 sekúndur.

Búast má við talsverðum fjölda gesta í Vesturbyggð, sérstaklega á Látrabjarg, að því tilefni. Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 9. júlí síðastliðinn að skipa starfshóp um undirbúning vegna sólmyrkvans. Starfshópinn skipa:

  • Páll Vilhjálmsson – formaður bæjarráðs
  • Tryggvi B. Baldursson – formaður skipulags- og framkvæmdaráðs
  • Freyja Pedersen – formaður umhverfis og loftlagsráðs
  • Elín Eyjólfsdóttir – formaður heimastjórnar fyrrum Barðastrandarhrepps og Rauðasandshrepps
  • Edda Kristín Eiríksdóttir – heimastjórn fyrrum Barðastrandarhrepps og Rauðasandshrepps
  • Maggý Hjördís Keransdóttir – fulltrúi bæjarstjórnar í heimastjórn fyrrum Barðastrandarhrepps og Rauðasandshrepps

Almyrkvi á sólu er þegar tunglið gengur milli sólarinnar og jarðar og skyggir á sólu að fullu, þannig að dagsbirtan hverfur tímabundið. Almyrkvi er aðeins þegar 100% sólar er myrkvuð. Erfitt er að lýsa hughrifunum og upplifuninni af þessu stórkostlega náttúruundri. Nánari upplýsingar um allt sem viðkemur sólmyrkvanum má lesa á heimasíðunni solmyrkvi2026.is.

DEILA