Hvaða gagn er að heimspeki?

Frá Þingeyri.

Hagnýt heimspeki verður á dagskrá í Skelinni á Þingeyri dagana 9.-10. ágúst undir yfirskriftinni Skelin Festival of Applied Philosophy. En hvað er hagnýt heimspeki og fyrir hver eru hún? Til að forvitnast um þetta fengum við Ketil Berg Magnússon, einn af gestgjöfunum í spjall. Ketill starfar sem mannauðsstjóri hjá Marel í Norður Evrópu og er stundakennari við Háskólann í Reykjavík. 

“Hagnýt heimspeki er aðferð til að ræða um og móta sér skoðun á mikilvægum spurningum í samfélaginu og í eigin lífi”, segir Ketill. Gagnrýnin hugsun, rökræða og siðfræði eru grunnurinn og gjarnan fer hagnýt heimspeki fram í samræðu tveggja eða fleiri aðila. Gott er að fá sjónarmið úr ólíkum fræðigreinum og þátttakendur vinna í sameiningu að því að finna besta svarið við spurningu sem sett er fram. Besta svarið er það sem stutt er bestu fáanlegum rökum. Í hagnýtri heimspeki segjum við gjarnan að við berum virðingu fyrir fólki, en ekki endilega fyrir skoðunum þeirra, sérstaklega ekki ef þær eru illa rökstuddar. 

En er ekki heimspeki bara spekúlasjón um lífið og tilveruna?

Hagnýt heimspeki er ólík fræðilegri heimspeki á þann hátt að spurningarnar tengjast raunverulegum áskorunum hér og nú, sem finna verður svar við til að geta haldið áfram. Oft erum við í tímapressu eða viljum einfaldlega halda áfram og taka ákvörðun um eitthvað sem okkur þykir mikilvægt. Fræðileg heimspeki er hins vegar oft ekki eins tímabundin og fjallar gjarnan um abstrakt hugtök og mikilvæg grundvallar málefni. Fræðilegur heimspekingur er ekki að flýta sér að finna lausn. Hann fussar gjarnan við kröfunni um hagnýtingu því ekki megi gefa afslátt af hreinni hugsun og leitinni að endanlegum sannleika. 

Hvenær nýtist hagnýt heimspeki?

Í vissum skilningi er hagnýt heimspeki afskaplega algeng og alþýðleg tegund hugsunar. Við tökum á hverjum degi ákvarðanir í okkar lífi og reynum að vega og meta valkostina sem við höfum á sem skynsamlegastan máta. Með upplýsingaflæðinu sem fylgir samfélagsmiðlum getur reynst erfitt að greina hvað er skynsamlegt og hvað ekki. Hagnýt heimspeki auðveldar okkur að vinsa úr vitleysuna frá því sem gagnlegt er og stutt með staðreyndum. Okkur tekst misvel upp. Stundum er svarið augljóst, við vitum hvað skal gera og við erum sátt við ákvörðun okkar eftir á, en stundum teljum við okkur hafa besta svarið en komumst svo að því þegar við skoðum málið betur að okkur sást yfir mikilvægar upplýsingar og því var niðurstaðan ekki góð. 

Getur þú nefnt dæmi?

Bóndi sem reynir að nýta jörð sína sem best og passa upp á velferð dýra sinna þarf að taka ákvarðanir á hverjum degi. “Á ég að slá í dag eða treysta að hann haldist þurr svo grasið spretti meira? Á ég að virkja bæjarlækinn og fá rafmagn eða á ég að leyfa fossinum að halda sér svo ég og mínir afkomendur geti haft þetta fallega útsýni af hlaðinu? Á ég að halda áfram að rækta sauðfé til manneldis eða þarf mannkynið ekki lengur kjöt? Bændur eru eflaust mismikið að spá í þessa hluti. Stundum eru ekki einföld svör og stundum þurfum við að lifa við að hlutirnir eru ekki svartir eða hvítir. Ég hef hitt marga sauðfjárbændur sem elska rollurnar sínar og gæla við lömbin og fyllast djúpri sorg í sláturtíðinni. Hagnýt heimspeki getur hjálpað þeim að sortera hugsanir sínar og tilfinningar og mögulega geta lifað í betri sátt við tilveru sína. 

Annað dæmi eru stórar spurningar eins og hvort fiskeldi sé gott fyrir Vestfirði. Það er auðvitað stór spurning sem fólk hefur ólíkar skoðanir á. Hagnýt heimspeki getur nýst fólki og samfélaginu til að hlusta á ólík sjónarmið og greina þau, ýta undir samkennd og virðingu milli fólks. Með gagnrýnni hugsun er hægt að koma auga á falsfréttir og fókusa á staðreyndir. Mögulega getur fólk orðið sammála en kannski verður niðurstaðan að fólk er ósammála um einhver atriði en getur samt lifað saman og borið virðingu fyrir hvort öðru. Hagnýt heimspeki getur spornað gegn skautun skoðana (pólaríseringu) sem er hættuleg því hún skapar gjá á milli fólks, sem getur leitt til andúðar og haturs. 

Hver verður fókusinn á Hátíð hagnýtrar heimspeki á Þingeyri í ágúst?

Já, Skelin, hátíð hagnýtrar heimspeki verður haldin í fyrsta skipti núna og við vonumst til að fá fólk með ólíkan bakgrunn til að taka þátt í nokkrum samræðum um samskipti fólks sem mynda hóp eða samfélög. Hátíðin fer fram á ensku og meðal umræðuefna verða „Vinalegur núningur / Philosophy of Friendly Friction“, „Siðfræðileg sérfræðiþekking / Moral Expertise“ og „Hvers vegna hjálpum við öðrum? / Why are we helpful?“

Heiðursgestur á hátíðinni verður Eyjólfur Kjalar Emilsson, prófessor emeritus við Háskólann í Ósló og leiðandi fræðimaður á heimsvísu í klassískri heimspeki. Hann er einnig myndlistarmaður og verða myndir eftir hann sýndar á hátíðinni. Erindi hans nefnist: Socrates and comrades on the self. 

Hver standa að hátíðinni?

Við erum þrjú sem skipuleggjum hátíðina. Auk mín, Salvör Nordal, umboðsmaður barna og prófessor við Háskóla Íslands og Öyvind Kvalnes, prófessor við BI viðskiptaháskólann í Osló. Við höfum unnið saman að ólíkum heimspekiverkefnum undanfarinn aldarfjórðung og finnst mjög spennandi að fagna heimspekinni og skoða hvernig hún getur gagnast fólki hér á Vestfjörðum. 

Nánari upplýsingar um Skelina – Hátíð hagnýtrar heimspeki og skráningarform má finna á vefsíðu hátíðarinnar. https://skelinphilosophy.com

Ketill Berg Magnússon

DEILA